Ég er á kafi í ævisögu Davíðs Stefánssonar þessa dagana og gengur býsna hratt, þetta er jú algjör doðrantur og fer illa á kodda. Ég fékk hana nú ekki í jólagjöf heldur keypti ég mér hana fyrir jólin, því þetta var auðvitað must read. Ást mín á honum nær kannski ekki jafn langt aftur og sú á George Michael (sem er einmitt hin ævisagan sem ég las um jólin) en svona alveg síðan í MA. Þetta er hinn skemmtilegasti lestur og ég held ég verði að fara að tylla heildarverkunum á náttborðið og fara að rifja upp gömul kynni. Ég er handviss um að amma les með mér í anda, við hefðum heldur betur getað sameinast yfir þessu. Komst að því að Davíð gekk undir dulnefninu Gneisti, í félagsskap sem hann var í …. 😉
Annars er ég nánast búin að hafa það of gott um jólin. Sem betur fer voru fáir tímar að kenna eftir jól, 16 stykki eða svo, og nú eru próf að hefjast á morgun. Mikil törn vissulega, en maður getur leyft sér að vera aðeins myglaðri en í kennslunni, að því ógleymdu að mæta ekki fyrr en um hálf níu eða svo sem er algjör munaður. Ég eyddi jólafríinu talsvert í lestur, spil og át, hina heilögu þrenningu jólanna. Las Love over Scotland – í 44 Scotland Street seríunni, las fyrstu í Shopaholic seríunni, sem lofar svo sem ágætu, nú svo las ég þá nýjustu í Erlends-seríunni og líkaði ljómandi vel. Spilaði nýja Partý og co., og gamla, góða Catan og hið nýja Cluedo sem við fengum í gjöf frá Gneistanum og frú, það lofar bara býsna góðu. Við spiluðum einnig við Strumpu, Sequence for kids, gömul jólagjöf til hennar frá sömu spilafíklum.
Átti unaðsleg þriggja manna áramót með eindæma góðum mat – ég sá meira að segja um hluta matarins sem telst til tíðinda – gerði bæði forrétt og eftirrétt og hvoru tveggja að sjálfsögðu unaðslegt. Gerði meira að segja tvo eftirrétti – þar af gamla, klassíska vanilluísinn, nema með vanillukornum (við systkinin eitthvað svo samtaka) og svei mér ef hann nálgaðist ekki ísa þeirra Óla frænda og Arnheiðar að gæðum.
Annars er það helst í fréttum að það stefnir í annað brúðkaups(f)ár, ef af öllu verður. Nú og við hjónin líklega á leið í rómantíska London-ferð um páska 🙂 .