Litið til sólar

Þá er aðeins farið að hægjast um aftur eða frá og með fimmtudegi. Það var fyrsti dagurinn í tvær vikur þar sem ég sló aðeins af og vann ekki eins og móðerfokker. Ekki það að ég á enn eftir að fara yfir helling en ég sé samt fyrir endann á vinnunni þar sem fyrsti bekkur er svo gott sem afgreiddur. Sé jafnvel fram á náðuga helgi þar sem ekkert bíður 🙂 . Það verður ljúft.

Ég hef svolítið náð að lesa á milli þess sem ég vinn. Kláraði Davíð (fann mér til mikillar gleði ljóð um langalangafa minn, bónda á Hillum á Áskógsströnd, enn meiri tenging við Davíð vin minn.) Fór í framhaldi á Davíðskvöld á fimmtudaginn var. Á Möðruvöllum þar sem prestshjónin lásu upp úr ævisögunni en það stóð reyndar meira upp úr að ættingjar og vinir skáldsins sögðu frá honum. Svo var endað á söng og ég endaði á enn meiri söng þar sem ég tók „Í dag skein sól“ eiginlega alla leiðina heim 😉 . Þetta var allt mjög rósrautt og yndislegt.

Nú, svo er alltaf hálfur hugur í London. Nú er búið að festa miða á Mamma Mia OG We will rock you en hápunktur ferðarinnar verður líklega (má vona amk) að borða á The Fat Duck sem er mjög frægur og virtur veitingastaður með 3 Michelin stjörnur. Þá hefur maður alla vega upplifað eitthvað sem ekki allir aðrir hafa gert.

Annars barst mér í gær andlátsfregn frá Danmörku. Børge, fósturpabbi minn frá því ’91 lést rétt fyrir jól eftir mjög skamma legu. Ég er mjög fegin að ég náði að hitta fjölskylduna í sumar þó ekki væri það langt.