Það stóð ekki á mér að dekra við manninn á Bóndadaginn. Hann fékk alls kyns gjafir, matreiðslubók og svuntu… ásamt einhverju fatakyns svona til þess að þetta yrði ekki allt skilaboð í sömu áttina. Og beauty-ið við þessi árans próf í janúar er að það er hægt að vera býsna laus við á þessum degi. Föstudagurinn var meira að segja laflaus því ég var búin að öllu sem bráðlá á. En nei, ekki dugði það til. Bóndinn nældi sér í magapest og var svo veikur að ég flúði úr rúmi svo aðfaranótt Bóndadags eyddum við sundur og eðli málsins vegna var engin bakarísferð að morgni, hvað þá kaffihúsaferð seinni partinn eða Halastjarnan að kvöldi. Þegar maturinn bregst þá fer allur ljóminn af deginum. Ég neyddist til að hrista eitthvað gómsætt en auðmeltanlegt fram úr erminni á föstudagskvöldið og var reyndar óvenju hjúkkuleg allan daginn því þetta element hefur alveg misfarist þegar ég var sköpuð. En sem sagt – frekar mikill flopp dagur. Okkur til huggunar frestaði ég Halastjörnunni um eina viku, ég vona að bóndinn verði farinn að bera barr sitt almennilega þá.
En listinn góði já. Ég sé að ég þarf að gera svona ársskýrslu, náði ég einhverjum markmiðum, eru markmið nýs árs óbreytt og svo framvegis… Ég þarf aðeins að velta mér upp úr þessu áður en ég birti skýrsluna.