Stór stund nálgast

Ótrúlegt en satt, ég er ekki að vísa í afmæli dóttur minnar sem er eftir rúma viku. Heimilislífið snýst samt mikið til um það og sú stutta skiptir svo ört um skoðun á afmælisköku að það er engin leið að fylgjast með. Við ætlum að halda upp á það fyrir fjölskylduna á sunnudaginn kemur, hún fær svo að bjóða fáum útvöldum á afmælisdaginn. Maður verður að smá hita sig upp í þessi ægilegu bekkjarafmæli *hrollur*.

Mál málanna er sem sagt ekki afmælið, heldur skólaspjaldið… það er sem sagt komið að hinu þriggjaáravissu spjaldi og nú er málið að toppa síðasta spjald. Ég hreinlega verð að vera sætari en ég var í 4. bekk svo ég pantaði mér snarlega klippingu og plokkun og litun svo ég eigi einhvern séns. Það að fara í plokkun og litun er strax plús því svoleiðis var ekki uppfundið þegar ég var í 4. bekk, það hlýtur að muna ansi hreint miklu. Ég er búin að æfa sama sæta brosið en því miður hef ég ekki aðgang að sömu, sætu fjólubláu peysunni. Anna systir á – átti hana nefnilega. Annars hefði ég getað tekið „finnið 5 villur“ á dæmið. Miðað við hvað ég fríkkaði mikið frá 1. bekk til 4. bekkjar hlýt ég að vera orðin margfalt fegurri í dag…. annars held ég að ég sé eina manneskjan í kennaraliðinu sem bíð spennt, hinir eru allir komnir á það stig að þeim finnst vera tvær vikur síðan síðasta spjald var tekið og sumir hafa jafnvel á stefnuskránni að vera sem ljótastir 🙂 .

PS Annars er það Finnbogi sem tekur myndirnar versus Palli í gamla daga. Það hlýtur að vera manni í hag líka.