Ofur góðir dagar

Það hefur ekki vantað blíðuna hér á okkur síðustu daga. Með merkilegum afleiðingum. Haldiði ekki að liðið hafi farið í vorhreinsun í garðinum á sunnudaginn og – það sem meira og merkilegra er auðvitað – málað skúrinn á mánudaginn. Það erum við nefnilega búin að humma af okkur síðan 2005, og tók síðan ca. tvo tíma þegar til kom. Það er bara þannig að á svona dögum er maður bara glaður að hafa eitthvað að gera úti við. Ég var meira að segja að hugsa um að borða úti í gærkvöldi, það var reyndar engin sól en við hefðum getað kveikt á kerti, það bærðist ekki grasstrá í garðinum. Síðan fannst mér það ekki alveg að gera sig – indverski maturinn átti betur við inni í eldhúsi.

Nú eru hins vegar munnleg próf og við sitjum og stiknum í stofu 27 sem hefur baðast í morgunsólinni. Grillum börnin í leiðinni 😉 . Hefðum betur farið í Lystigarðinn og prófað þau þar…