Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2008

Túristaleikurinn

Í síðustu viku vorum við með Sigrúnu túrista hjá okkur. Það fór nú ekki allt eins og átti að gera, Minjasafnið (þar sem mér skilst að eldhúsinnréttingin úr Stekkjargerði sé til sýnis…) og Davíðshús fóru fyrir lítið. Það fyrra vegna leti, það síðara vegna lokunar. Aftur á móti náðum við góðum túristamat sem náði hámarki þegar við fórum (fyrir viku) út að borða á Friðrik V. Fyrir valinu varð 5 rétta óvissuferð með víni (fyrir kellurnar þeas.) Maturinn var unaður frá upphafi til enda. Byrjaði á smá flís af nautacarpaccio (meðan við drukkum fordrykkinn). Svo man ég ekki meir því ég var orðin svo full. Neeeeiii, ekki alveg. En ég man ekki alveg allt. Blandaða sjávarrétti, lundi eldaður á tvenns konar hátt, lamb og naut í aðalrétt og fjórir blandaðir eftirréttir – sérstaklega unaðsleg súkkulaðikaka, eins og alltaf en alveg frábær engiferís líka. Í millihreinsun fengum við sorbet úr hvönn (minnir mig….) en hvað var þetta fimmta aftur???

Í dag fórum við svo aðra óháða túristaferð, að þessu sinni með Kristínu, Árna og Sveini Áka, ásamt tveimur dönskum feðgum, góðvinum þeirra (hringir DV með skandalsögur af Brekkuskólanemendum senda heim fyrir fyllerí einhverjum bjöllum??). Leið okkar lá til Grímseyjar. Fyrsta skiptið fyrir okkur litlu fjölskylduna. Og alveg snilld nema Strumpa nældi sér auðvitað í sjóveiki á leið út en var bara dópuð niður á leið í land.  Þetta var mikil óvissuferð því það var þoka í bænum þegar var lagt íann og spurning hvernig Grímsey hefði það. Hún reyndist hafa það gott, reyndar talsverður vindur en sól og yndislegheit að öðru leyti. Þegar við skiluðum okkur í bæinn, um átta leytið var enn 23 stiga hiti í bænum. Þessi síðasta vika hefur verið ótrúleg. Ég hef samt bara náð mér í góða gamaldags bændabrúnku en hún er betri en ekkert.

Annars er ég mjöööög heit fyrir Nýdönsk á föstudagskvöld. Við ræddum það nefnilega skólasysturnar að kvöldi 16. júní að það vantaði að fá Nýdönsk að spila annars staðar en í Sjallanum. Nema hvað, mér varð að ósk minni. Nú vantar mig bara dansfélaga. Er með eina í sigtinu, eru einhverjir á varamannabekknum (ekki óléttar eða á Norðurlöndum?) sem vilja memm?

Skælulok

Brúðkaup nr. 2 var hið skemmtilegasta. Alveg frábær athöfn í Fríkirkjunni þar sem H-in þrjú, Hjörtur Magni, Helgi Heiðar og Háskólakórsparturinn fóru á kostum í persónulegri og hlýlegri athöfn. Brúðhjónin afar sæt og mjög plein sem var mér mjög að skapi. Náði að hemja táradalinn býsna vel, fór ekki svo að ég þyrfti viskustykki til að þurrka framan úr mér eins og síðast, þetta var meira svona horfa í gegnum móðu-fílingur. Á milli veislu og athafnar voru æfingabúðir hjá tengdafjölskyldunni til að æfa skemmtiatriði kvöldsins. Veislan hófst klukkan fimm. Skemmst frá því að segja að hún lukkaðist vel. Sjaldan eða aldrei hef ég til að mynda dansað við Hjálpum þeim – það leynir á sér sem danslag. Skemmtiatriði fjölskyldunnar fór vel fram, hins vegar hafði þema kvöldsins verið „syngjum nú lög um Sigga og Sigrúnu“, svo það var eins gott að atriðið var tryllingsgott. Ég naut þess að hafa Helga forsöngvara við hliðina á mér. Tengdafjölskyldu minni er síðan ekki viðbjargandi þegar kemur að myndavélum. Að öðrum ólöstuðum þá sátu Hanna og Ármann lang-kátust fyrir. En við náðum góðu nýju þema að þessu sinni, engar Zoolander myndir, bara skorumyndir. Þær urðu ekkert rosamargar, en þeim mun fegurri voru skorurnar sem náðust á mynd. Er á engan hallað þegar ég segi að mín hafi verið fallegust. Og Nonna skora (sú efri) var í slíkri samkeppni að hún átti engan séns. Það væri auðvitað viðeigandi að sýna dæmi, máli sínu til stuðnings en ég læt það eiga sig.

Brunuðum heim á sunnudag. Það er að verða búið að ofnota alla samkvæmis-bílaleiki til að hafa ofan af fyrir dótturinni. Bílferðin gekk þó vel. Það kallast svo þegar bílveikin hræðilega brýst ekki út. Kettirnir voru alsælir að fá okkur heim. Fyrsta kvöldið uppi í rúmi plantaði Prinsi sér ofan á mig. Það gerir hann ekki oft, hann er meira svona miðjuköttur. Enda varð Skessa hálf súr þegar hún kom og fann kött í bóli bjarnar en lagðist þá bara á bringuna á mér. Fékk engan frið þar, sá gamli ýtti henni burt, ætlaði að eiga sitt quality móment í friði.

Erum búin að fara í góða Kristínar-Árna-SveinsÁka endurhæfingu. Þau mættu í bítið á mánudag, við fórum í mat til þeirra í gær (snilldargóðan) og svo saman í bíó (fullorðna gengið) að sjá Mamma Mia í dag. Það er ekkert smá „must buy“ dvd. Ég var með móðu á augunum á parti, gleðibros á andlitinu allan tímann og syngjandi með sjálfri mér í öllum lögum. En eins og Kristín sagði, við verðum að horfa á hana með rauðvíni og syngja hástöfum með öllum lögum…. Og Colin Firth er svo sannarlega mikið krútt.

Framundan er 90 ára afmæli hjá afa um helgina og góður gestur eftir helgi (reyndar góðir gestir um helgina líka, auðvitað….) en góði gesturinn okkar er búinn að panta borð á Friðrik V. og Halastjörnuna så jeg glæder mig helt vildt….. mumms.

Mætt til landsins

Þá er ég búin með útlandaútlegðina í bili. Var í þrjár vikur í burtu sem er með því lengra sem gerist. Fékk svona ca. 3 góða veðurdaga svo ekki bætti ég brúnkuna. Stóð mig hins vegar alveg yfir meðallagi í innkaupum. Náði til að mynda að kaupa brúðkaupsdress og skó (þetta síðarnefnda frekar sjaldgæft). Brúðkaupið hjá systur var yndislegt. Ég grét alveg óskaplega og það gerði brúðurin og systir brúðgumans og gott ef ekki brúðguminn sjálfur, svo ég var í góðum selskap. Kannski ég taki með mér klúta til að grípa í, í næsta brúðkaupi? Við eyddum einum og hálfum degi í Stokkhólmi. Ekki brostu veðurguðirnir þar. Fórum í kanalsiglingu fyrri daginn, sem var góð nema hvað Strumpan var aðeins farin að missa þolinmæðina eftir hálfan túr eða þar um bil. Þriðjudagurinn var því meira helgaður henni, fyrst farið á Skansen, aðallega að skoða dýr. Þar vöktu mesta lukku geitur og selir. Með öðrum orðum, alveg eins hægt að fara í Húsdýragarðinn 😉 . Reyndar fékk sú stutta líka að klappa bóa-slöngu og tarantúlu. Því miður var ég sett á myndavélina og gat ekki klappað þessum fallegu dýrum. Af Skansinum fórum við í Grænalund. Fórum í ýmis tæki, fyrst í rússíbana sem móðurinni þótti nóg um og Strumpan gat ekki einu sinni argað (nema þegar við vorum að fara af stað) því hún var algjörlega stjörf. En hún hefði alveg verið til í meira. Henni fannst líka frekar aumt að fara bara í sjö tæki, enda bliknar þetta í samanburði við Faarup Sommerland þar sem við eyddum heilum degi í fyrra og gátum beitt okkur vel. Eftir Grænalund fórum við heim á Östermalm og fundum þar ágætan ítalskan stað á Riddaragötu – Hlébarðaveitingastaðurinn heitir hann. Þar var Sóleyju sinnt í bak og fyrir og við fengum stórfínan mat. Í gærmorgun skein sól þegar við fórum í flug. Í borginni var reyndar þokkalegt veður í dag. Við náðum ágætri IKEA ferð þar sem Mummi bætti upp fyrir litla verslun í útlöndum, svo Prius mun væntanlega eyða miklu bensíni á heimleiðinni. Við gistum hjá Óla og Eygló, í fjarveru húsbændanna í augnablikinu en þau eru væntanleg í kvöld og fara norður og búa í húsinu okkar og knúsa kettina fyrir okkur. Við erum svo væntanleg til Akureyrar á sunnudag. Það verður gott að koma heim eftir langa fjarveru.

PS Í gær fæddust tvíburar í næstu götu. Hannes er orðinn stóribróðir og á nú bæði litla systur og lítinn bróður.