Mætt til landsins

Þá er ég búin með útlandaútlegðina í bili. Var í þrjár vikur í burtu sem er með því lengra sem gerist. Fékk svona ca. 3 góða veðurdaga svo ekki bætti ég brúnkuna. Stóð mig hins vegar alveg yfir meðallagi í innkaupum. Náði til að mynda að kaupa brúðkaupsdress og skó (þetta síðarnefnda frekar sjaldgæft). Brúðkaupið hjá systur var yndislegt. Ég grét alveg óskaplega og það gerði brúðurin og systir brúðgumans og gott ef ekki brúðguminn sjálfur, svo ég var í góðum selskap. Kannski ég taki með mér klúta til að grípa í, í næsta brúðkaupi? Við eyddum einum og hálfum degi í Stokkhólmi. Ekki brostu veðurguðirnir þar. Fórum í kanalsiglingu fyrri daginn, sem var góð nema hvað Strumpan var aðeins farin að missa þolinmæðina eftir hálfan túr eða þar um bil. Þriðjudagurinn var því meira helgaður henni, fyrst farið á Skansen, aðallega að skoða dýr. Þar vöktu mesta lukku geitur og selir. Með öðrum orðum, alveg eins hægt að fara í Húsdýragarðinn 😉 . Reyndar fékk sú stutta líka að klappa bóa-slöngu og tarantúlu. Því miður var ég sett á myndavélina og gat ekki klappað þessum fallegu dýrum. Af Skansinum fórum við í Grænalund. Fórum í ýmis tæki, fyrst í rússíbana sem móðurinni þótti nóg um og Strumpan gat ekki einu sinni argað (nema þegar við vorum að fara af stað) því hún var algjörlega stjörf. En hún hefði alveg verið til í meira. Henni fannst líka frekar aumt að fara bara í sjö tæki, enda bliknar þetta í samanburði við Faarup Sommerland þar sem við eyddum heilum degi í fyrra og gátum beitt okkur vel. Eftir Grænalund fórum við heim á Östermalm og fundum þar ágætan ítalskan stað á Riddaragötu – Hlébarðaveitingastaðurinn heitir hann. Þar var Sóleyju sinnt í bak og fyrir og við fengum stórfínan mat. Í gærmorgun skein sól þegar við fórum í flug. Í borginni var reyndar þokkalegt veður í dag. Við náðum ágætri IKEA ferð þar sem Mummi bætti upp fyrir litla verslun í útlöndum, svo Prius mun væntanlega eyða miklu bensíni á heimleiðinni. Við gistum hjá Óla og Eygló, í fjarveru húsbændanna í augnablikinu en þau eru væntanleg í kvöld og fara norður og búa í húsinu okkar og knúsa kettina fyrir okkur. Við erum svo væntanleg til Akureyrar á sunnudag. Það verður gott að koma heim eftir langa fjarveru.

PS Í gær fæddust tvíburar í næstu götu. Hannes er orðinn stóribróðir og á nú bæði litla systur og lítinn bróður.