Skælulok

Brúðkaup nr. 2 var hið skemmtilegasta. Alveg frábær athöfn í Fríkirkjunni þar sem H-in þrjú, Hjörtur Magni, Helgi Heiðar og Háskólakórsparturinn fóru á kostum í persónulegri og hlýlegri athöfn. Brúðhjónin afar sæt og mjög plein sem var mér mjög að skapi. Náði að hemja táradalinn býsna vel, fór ekki svo að ég þyrfti viskustykki til að þurrka framan úr mér eins og síðast, þetta var meira svona horfa í gegnum móðu-fílingur. Á milli veislu og athafnar voru æfingabúðir hjá tengdafjölskyldunni til að æfa skemmtiatriði kvöldsins. Veislan hófst klukkan fimm. Skemmst frá því að segja að hún lukkaðist vel. Sjaldan eða aldrei hef ég til að mynda dansað við Hjálpum þeim – það leynir á sér sem danslag. Skemmtiatriði fjölskyldunnar fór vel fram, hins vegar hafði þema kvöldsins verið „syngjum nú lög um Sigga og Sigrúnu“, svo það var eins gott að atriðið var tryllingsgott. Ég naut þess að hafa Helga forsöngvara við hliðina á mér. Tengdafjölskyldu minni er síðan ekki viðbjargandi þegar kemur að myndavélum. Að öðrum ólöstuðum þá sátu Hanna og Ármann lang-kátust fyrir. En við náðum góðu nýju þema að þessu sinni, engar Zoolander myndir, bara skorumyndir. Þær urðu ekkert rosamargar, en þeim mun fegurri voru skorurnar sem náðust á mynd. Er á engan hallað þegar ég segi að mín hafi verið fallegust. Og Nonna skora (sú efri) var í slíkri samkeppni að hún átti engan séns. Það væri auðvitað viðeigandi að sýna dæmi, máli sínu til stuðnings en ég læt það eiga sig.

Brunuðum heim á sunnudag. Það er að verða búið að ofnota alla samkvæmis-bílaleiki til að hafa ofan af fyrir dótturinni. Bílferðin gekk þó vel. Það kallast svo þegar bílveikin hræðilega brýst ekki út. Kettirnir voru alsælir að fá okkur heim. Fyrsta kvöldið uppi í rúmi plantaði Prinsi sér ofan á mig. Það gerir hann ekki oft, hann er meira svona miðjuköttur. Enda varð Skessa hálf súr þegar hún kom og fann kött í bóli bjarnar en lagðist þá bara á bringuna á mér. Fékk engan frið þar, sá gamli ýtti henni burt, ætlaði að eiga sitt quality móment í friði.

Erum búin að fara í góða Kristínar-Árna-SveinsÁka endurhæfingu. Þau mættu í bítið á mánudag, við fórum í mat til þeirra í gær (snilldargóðan) og svo saman í bíó (fullorðna gengið) að sjá Mamma Mia í dag. Það er ekkert smá „must buy“ dvd. Ég var með móðu á augunum á parti, gleðibros á andlitinu allan tímann og syngjandi með sjálfri mér í öllum lögum. En eins og Kristín sagði, við verðum að horfa á hana með rauðvíni og syngja hástöfum með öllum lögum…. Og Colin Firth er svo sannarlega mikið krútt.

Framundan er 90 ára afmæli hjá afa um helgina og góður gestur eftir helgi (reyndar góðir gestir um helgina líka, auðvitað….) en góði gesturinn okkar er búinn að panta borð á Friðrik V. og Halastjörnuna så jeg glæder mig helt vildt….. mumms.