Hún á afmælídag

Jamm, afmælisdagurinn að verða liðinn. Á morgun verð ég nær því að verða 40 en 30. Ákveðið sjokk, svona forsjokk fyrir fertugsafmælið. Bauð aldrei þessu vant í smá kaffi og átti huggulegan dag, kom mér þó nánast hjá öllu og bakaði bara eina köku, lét svo Bakaríið við brúna og Nettó um rest. Lífið að bresta á eftir utanlandsferðina. Hún var eins unaðsleg eins og ég vonaði. Góðir og rólegir dagar í Svíþjóð, aðeins meira prógramm í Danmörku. Sóley fékk heilan dag í Tivólí, það voru fáir þar, engar raðir og alles, enda skúrir af og til. Ég skellti mér í Dæmonen, það fer hver að verða síðastur, ég er að verða svo kjarklaus með aldrinum. Síðan tókum við smá Striksrölt og Planetarium seinni daginn. Ljómandi  gaman það. Svo var gistingin skemmtileg á sinn hátt. Í eðal gömlu húsi á Christianshavn – mjög heimilislegt allt saman. Kettlingafull læða einn heimilismeðlima og sá eini sem við áttum einhver samskipti við eftir að lyklaafhending fór fram. Sóley vonaði allan tímann að það drægi til tíðinda með hana, en það hafðist ekki. Staðsetningin var snilld, svona 3ggja mín. rölt í strætó og metro svo það gat ekki verið einfaldara. Keypti alveg bönns á Sóleyju en minna á mig. Bætti þó aðeins upp fyrir það í gær þegar ég fór á fatakynningu hjá svilkonu minni 😉 .

Svo styttist bara í skólabyrjun, haustpróf í næstu viku og fjarkennslan að byrja. Ég er með stundaskrá dauðans, en afar þægilega stærð á bekkjum, verð bara að hugga mig við það. Maður er aðeins að komast í gírinn að byrja.