Sumarlesturinn

Ég er búin að lesa eitt og annað í sumar. Eins og oft áður hef ég náð mér í slatta af bókum á útlensku og lesið þær. Fátt eitt merkilegt þar. Hins vegar er ég búin að lesa þrjár athyglisverðar bækur. Fyrst kom Mummi færandi hendi til Svíþjóðar og gaf mér Strákinn í röndóttu náttfötunum.  Sá í hendi sér að það væri eitthvað fyrir mig af því að það stóð eitthvað um að gráta yfir lestrinum aftan á bókakápunni. Hún hitti líka vel í mark. Afar athyglisverð bók en aldrei þessu vant grét ég ekkert.

Síðan fékk ég lánaða Áður en ég dey. Það reyndist grátbók mikil, svona af kalíberinu viskustykki við hendina. Mæli með henni fyrir þá sem elska að gráta yfir bókum. Sú síðasta í sorglega flokknum var Marley og ég. Hundabókin um óþægasta hund í heimi. Hún var meira svona hlegið og grátið bók því hún var mjög fyndin á köflum, byggð á sannri sögu (maður getur meira að segja séð Marley á You tube) og lýsingarnar hreint ótrúlegar. Í lokin var ég hins vegar farin að gráta mikið, enda hundurinn farinn að eiga í manni hvert bein (hmmm kannski ekki heppilegt?).

Núna er ég bara leið af því að ég hef ekkert svona gríðarlega spennandi að lesa, mig vantar svona bók sem maður tætir í sig. Ég er að þræla mér í gegnum Phillip Pullman, bara fyrir Mumma. Northern Lights er svo sem ágæt en hefur ekki hertekið mig og ég er búin að vera svona mánuð með þriðjung bókarinnar. Sá reyndar viðtal í gær við uppáhalds danska rithöfundinn minn á DR og er að spá í að draga upp það sem ég á eftir hana.

10 replies on “Sumarlesturinn”

 1. marley er æði og röndóttu náttfötin líka. ég er mjög hrifin af alice seabold og jodie picoult – ég hef lesið nokkrar eftir þær og alltaf verið ánægð 🙂

 2. Ertu búin að lesa Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur? Sú bók kom mér á óvart – mæli með henni

 3. Neibb, hef ekki lesið þessa bók eftir Kristínu. Gott að fá ábendingar, maður þarf eiginlega að skrifa þær á miða og stinga í veskið sitt svo maður muni þær líka á bókasafninu. Við erum að tala um konuna sem fór í búð í gær til að kaupa í kvöldmatinn (kjötbollur) en keypti ekkert nautahakk…

 4. Uuu..get ekki mælt með neinni bók þar sem ég hef varla lesið staf síðan Malín fæddist (sem gera rúmlega 4 ár).
  Ég bara get ómögulega lesið eftir að þessar dætur mínar fæddust, eða jú bara matreiðslubækur. Jommí.
  Ef þú finnur ekkert áhugavert að þá er bara að kíkja í Ísfólkið aftur. Það klikkar ekki :).
  Er alltaf á leiðinni að byrja aftur. Er búin að vera á bók 1 í eina 17 mánuði :(. Agalegt. Alveg glatað.
  En áður en þær systur fæddust að þá las ég allar bækurnar á 3 mánuðum og í vinnunni..hih..næs 🙂

  Innilega til lukku með daginn um daignn.
  Skil það vel að lenda í því að kaupa meira á strumpuna en þig. Þetta gerist alltaf með mig. Ætila að versla á MIG og bara MIG, en enda á því að koma út með 3 stóra poka á þær systur. Það er bara miklu auðveldara að finna flott föt á þær. Ekkert mátunarvesen og leiðindi.

  úff…bara langt.
  En jæja.
  Sjáumst vonandi eftir 2 vikur eða svo. Spurning um að stefna á hitting :)?
  dú dú.

 5. Vona að þér hafi farið að ganga betur með Phillip Pullman bækurnar – þær eru algjör snilld (staðreynd ekki álitamál!). Tek annars undir meðmæli um Á eigin vegum. Frábær bók. Gæti ábyggilega talið ýmislegt fleira skemmtilegt upp en er svo heiladauð akkúrat núna að ég man ekki eftir neinu.

  Hver er uppáhalds danski rithöfundurinn þinn sem þú nefnir (en nafngreinir ekki) í færslunni? Ég er forvitin (og finnst alltaf gaman að uppgötva skemmtilega rithöfunda).

 6. Einn uppáhalds danski rithöfundurinn minn er Hanne Vibeke Holst. Það er örugglega búið að þýða eina bók eftir hana „Krónprinsessan“ sem er fyrsta bókin í þrílógíu. Það er byrjað að gera sjónvarpsþætti eftir þessum bókum, af einhverjum ástæðum vildu DR ekki gera þá, svo þættirnir urðu sænskir. Þeir hafa hins vegar ekki ratað til RÚV – bölvaðir asnar þar.

 7. Já, ég hef lesið allt (eða hér um bil allt) eftir hana á dönsku – oft! 🙂 Svo á ég sænsku þættina á DVD, þ.e. Kronprinsessen, og rambaði á part af Kongemordet í sænska sjónvarpinu fyrr á árinu.

  Ég vil að hún fari að gefa út nýja bók.

Comments are closed.