Vanagangurinn

Þá er allt að bresta í rétt form. Sóley byrjuð í öllu sínu, vinna að hefjast formlega hjá mér á morgun og allt sósíallíf að fara af stað. Mummi fór í haustferð RT um helgina, við mæðgur vorum einar heima og höfðum það gott. Ákváðum að hafa stelpukvöld á laugardagskvöldið, horfa saman á Grease og gúffa í okkur nammi. Strumpan var illa spennt yfir því, sagði öllum sem heyra vildu af þessu og stundi upp eftir hádegi á laugardag hvenær þetta stelpukvöld byrjaði eiginlega. Dagurinn leið þó fljótt því við fórum í réttir í sveitina til langömmu hennar. Sveitagenið spratt fram og sú stutta var aldeilis óð að draga í dilka, vildi helst enga aðstoð þó að aðfarirnar væru stundum eins og á ródeói, hún á baki að halda í horn og svo bara líf og dauði hvort hún héldist þar og þetta þó að ég væri með. Við skemmtum okkur báðar svona vel, ég hef jú alltaf verið smá sveitakona inn við beinið en það fær helst útrás þegar ég knúsa kettina. Við komum hins vegar seint og síðar meir heim. Fröken fékk að velja kvöldmat og spurði hvort ég kynni að elda hrísgrjónagraut. Ekki von að barnið efist. Hún þekkir auðvitað ekki fortíð mína sem ungfrú Mjólkurgrautur – mörg ár í röð ósigruð. Eftir graut og bað á báðar hendur var klukkan orðin margt en við fórum samt undir sæng með nammi og byrjuðum að horfa. Sóley var býsna hrifin af myndinni (hafði fyrr spurt um hvað hún væri og ég svaraði því til að hún væri um ást og þá spurði hún auðvitað hvort hún myndi læra eitthvað um ást… hmmm. Já, ekki verða skotin í aðaltöffurunum, þeir vilja þig ekki eins og þú ert). Nema hvað, þegar kom að danskeppninni var farið að síga á seinni hlutann hjá minni og hún kvartaði yfir að vera illt í augunum 😉 . Svo myndin var sett á ís og á eftir að klára seinni hlutann.

Annars er ég farin að fíla mig utanveltu. Hvað er málið með Hjaltalín og þetta lag sem allir tala um? Ég ekki skilja!

4 replies on “Vanagangurinn”

  1. Þú komst við hjartað í mér með Hjaltalín….meira segja ég veit hvaða lag er verið að tala um og þá er nú mikið sagt. Alveg prýðilegt lag. Það ætti að vera nóg fyrir þig að hlusta á útvarpið, einhverja rás í ca. 10 mín og þá heyrirðu það 🙂

  2. Ég er svo heppin að það er alltaf nýja lagið með Nýdönsk sem kemur þegar ég kveiki á útvarpinu. Svo kemur eitthvað leiðinlegt og þá slekk ég aftur.

  3. Vá… ég hef í alvöru enga hugmynd um hvaða lag þetta er! Ég hélt kannski að ég hefði heyrt það án þess að vita hvaða lag var verið að spila en nei…

Comments are closed.