Lasna Bína

Þá kom að því að heilsufarið lenti í áföllum, í takt við annað. Strumpan gaus í nótt með tilheyrandi litlum nætursvefni og ófögnuði. Er þó óðum að ná sér og móðirin búin að planta henni dyggilega fyrir framan sjónvarpið og grípur í vinnu og tölvu á meðan. Vonir standa til að þetta taki skemmri tíma en þjóðarkrísurnar. Sú stutta er alsæl að vera heima í dekri, aldrei er hugsað jafn vel um mann og þegar maður er lasinn (kók og vídeó er alveg málið…). Unglingurinn gerði annars vart við sig um daginn. Við vorum nefnilega í heimsókn hjá Kristínu og Árna og sex ára unglingurinn þar var búinn að skrifa aðvörun utan á hurðina sína um að það ætti að banka, með hauskúpu og tilheyrandi. Mín gat ekki verið minni manneskja og skrifaði líka reglu fyrir sitt herbergi, örlítið minna ógnvekjandi reyndar, því myndskreytingin var af regnboga og hjörtum, meðal annars.

Ég vinn frameftir öll kvöld núna, hið hroðalega miðannarmat framundan og eitthvað þarf að vera konkret á bakvið stafinn sem maður slettir fram um nám barnanna. Hlakka ekkert smá til þegar kvöldvinnan einskorðast við einn til tvo tíma aftur. Ég átti líka snilldarleik í síðustu viku. Ætlaði að breyta leikhúsmiðunum okkar til að Mummi þyrfti ekki að fórna balsa-stund en komst að því að ég hafði átt að vera í leikhúsi nokkrum kvöldum fyrr. Hummaði það lengi fram af mér að gráta í miðasölunni enda skrifaðist þetta alfarið á eigin heimsku. Fór loks og grét undir rós og miðasölukonan vorkenndi vitlausa kúnnanum og græjaði nýja miða. Svo hápunktur vetrarfrísins eftir viku verður leikhúsferð á Músagildruna. Strumpan að sjálfsögðu mjög ósátt við að fá ekki að fara með og var lítið gagn að loforðum um jólasýninguna um Láp, Skráp og jólaskapið. Hitt er mun meira spennandi.