Af því að mér dettur ekkert í hug að skrifa en vil samt taka mig svolítið á þá kemur hér lítil færsla um menningarstörf Hafdísar um þessar mundir. Þar ber hæst að ég fór í leikhúsið í síðustu viku til að sjá Músagildruna. Leikritið var hið ágætasta, ég held að það hafi verið afar nauðsynlegt að vera í Agöthu Christie stellingum til að reikna ekki með neinni ofurspennu. Þetta var allt mjög Agöthulegt. Það sem skyggði helst á gleði mína var það að sem við Mummi gengum Glötunarveginn að leikhúsinu, heyrðum við ámátlegt kvein í ketti og blóðslóð á stígnum og ég hafði meiri áhyggjur af örlögum kattarins dularfulla en persónanna í leikritinu. Svo mjög að á eftir fór ég í rannsóknarleiðangur eins og alvöru spæjari í leit að kettinum en fann hann ekki. Svo ráðgátan sú leystist ekki.
Í gær fór ég svo og keypti miða á næsta menningarviðburð. Palli og Monika ætla að halda jólatónleika eftir mánuð og það er nú svo klassísk desemberupplifun að ég læt það ekki fram hjá mér fara. Strumpan fær að fara með, hún er nú orðin svo stór að hún treystir sér til að fara og sitja eins og fullorðin manneskja og vaka frameftir á fimmtudagskvöldi. Það þarf ekki að orðlengja það að hún er afar spennt. Ekki minnst fyrir því að berja goðið augum, hún var frekar sár að ég skyldi hafa séð Palla en ekki hún. Eitt af því sem er svo ósanngjarnt þessa dagana.
Hins vegar missi ég af Villa og lúðrasveitinni annað kvöld því ég er að fara á indverskt kvöld með manninum mínum og Round Table. Þeir ætla að dekra við konurnar. Ég mæli hins vegar með því að fólk skelli sér á Villa. Hann var á ferðinni í skólanum í dag og sat um stund á kennarastofunni og spjallaði. Lofaði amk skemmtun og ef allt færi vel, skemmtun og flottum tónleikum.