Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2008

Í fullorðinna manna tölu

Þá er búið að taka Strumpuna með á fyrstu fullorðins tónleikana í gær. Sú stutta stóð sig þokkalega, var reyndar frekar þreytt og kúrði mikið í fanginu á foreldrum sínum og breiddi kápuna yfir sig, stundum meira að segja upp fyrir haus. Nokkur vonbrigði að geta ekki setið framarlega, Mummi og tengdamamma voru mætt á undan okkur „til að ná þokkalegum sætum“ en það dugði sem sagt ekki til að mæta hálftíma fyrr, þau náðu með naumindum þremur sætum á næst aftasta bekk. Kirkjan var sem sagt stappfull og alveg á mörkum þess siðlega að selja svona mörgum inn. Svo við þurftum að sperra okkur all mikið til að sjá votta fyrir einhverju. Tónleikarnir voru auðvitað ljúfir og kannski á maður bara að taka jólahugarfarið á þetta, þröngt mega sáttir sitja og það allt. Strumpan þurfti reglulega að tjá sig en það var erfitt að banna henni þar, þar sem tvær harðfullorðnar konur spjölluðu sín á milli mjög reglulega alla tónleikana og þá var ekki hvíslað. Að tónleikunum loknum náði Sóley þó að sjá Pál Óskar í nærmynd, hann áritaði diska í anddyrinu og við dokuðum í sætunum okkar þangað til hann fór þangað, þá gekk hann beint fram hjá okkur og sú stutta hneig nánast í gólfið af aðdáun.

Ég dreif mig reyndar líka á tónleika á miðvikudagskvöld. Þá var Kvennakórinn Embla með tónleika og litli frændi að spila á gítar. Það var líka notaleg stund. Þær hafa alveg svakalega flottan efri sópran (að neðri sópran ólöstuðum auðvitað) sem framkallaði gæsahúð á köflum. En ég er hins vegar svo sparsöm á Heims um ból að ég vil helst ekki heyra það fyrr en á jólunum. Ýmsar útsetningar skemmtilegar, ég held til dæmis mikið upp á Slá þú hjartans hörpu strengi, síðan ég heyrði Óbóið spila það með kirkjukórnum hér um árið. Núna var það gítarkvartett sem spilaði undir og það kom glettilega vel út. Prýðis gott. En ég dreif mig náttúrulega strax heim til að ná Eli Stone. Maður missir nú ekki af þætti sem skartar „special appearance by George Michael“…  Enda var hann bara skemmtilegur og ég horfði líka óvart á þátt sem hét Carpoolers og hann kom líka á óvart. Þetta var nota bene eina kvöld vikunnar þar sem ég var ekki að vinna, svo það var vel nýtt í misfína menningu 😉 .

Stjarna er fædd

Það voru tónleikar í dag á Glerártorgi. Strumpan tilkynnti í morgun að hún ætlaði ekki að spila og ástæðan sem hún gaf upp var sú að það væru unglingar að spila með í hópnum. Það náðist að sannfæra hana um að það væri ekki ástæða til  að hræðast fiðluspilandi unglinga, það væri friðsemdarfólk. Hún lét því tilleiðast og tók annars vegar söngnúmer og svo ógurlegt fiðluspil. Síðasta fiðlulagið var reyndar meira svona „mæmað“ af því að það var óæft en maður spilaði nú samt eins og þetta væri bara minnsta málið. Þetta var ljómandi gaman, samtals fimm áhorfendur úr fjölskyldunni að dást að henni og afinn og amman úr Akurgerðinu létu sig meira að segja hafa það að sitja undir sellónemendum, víólunemendum og píanónemendum áður en kom að henni. Við fórum svo á kaffihús en þegar við vorum að tygja okkur til brottfarar komu þrír jólasveinar og fóru að syngja á sviðinu. Strumpan stóð fyrir framan í góðum gír (hafði reyndar hitt sveina í bænum í gær og náð að knúsa einn svo vel að fullorðnir stundu allt í kring) og söng eins og hún ætti lífið að leysa. Einn sveinkinn fór þá að ganga um og leyfa krökkum að syngja í hljóðnemann og þær voru tvær hlið við hlið (hin líka fiðlustelpa) sem tóku það með trompi. Á endanum var þeim boðið á svið, afhentur sitt hvor hljóðneminn og svo sungu þær tvö lög, Jólasveinar einn og átta og Skín í rauða skotthúfu. Eins og þær hefðu ekki gert annað. Og litla prikið söng bara býsna vel. Við foreldrarnir og Sigga amma alveg gapandi af undrun. Þetta gen kannast hvorugt okkar við, ég ímynda mér þó að það hefði mátt rækta það upp í mér en varla föðurnum… eller hur? 😉 Því miður höfðum við klikkað á myndavél og vídeókameru, enda komum við beint úr hundaheimsókn á Grísará og vorum alveg á síðasta snúning. Síminn hans Mumma bjargaði þó einhverju.

Helgin annars búin að vera með ágætum, afar settlegt jólakvöld hjá LC á föstudagskvöld, laufabrauð upp á gamla mátann í gær og feikigott jólahlaðborð á KEA sömuleiðis. Og vinna. Get ekki beðið eftir að fjarkennslunni ljúki…. og ég vona, þó að ég hafi ekki heyrt hvort það sé kominn eftirmaður, að ég sé laus frá og með janúar.

Leynivinir góðir

Skólinn hefur verið undirlagður alla vikuna af leynivinamakki og það hefur heldur betur sett skemmtilegan blæ á kennarastofuna. Allt tal um krísur út og inn með grunsemdir og gleði. Ég átti frábæran leynivin sem náði að leika á mig. Fyrst fékk ég súkkulaðidagatal sem ég borða úr og rifja upp æskuminningar í leiðinni. Síðan fékk ég piparkökur og súkkulaði. Þetta fannst mér kvenlegar gjafir og bréfin sem fylgdu með voru klárlega skrifuð af kvenmanni. Á miðvikudag snérist það svo við. Ég fékk bjórflösku og sólgleraugu, með orðsendingu um að ég væri föl og stressuð – skrifuð af karlmanni – og reyndar teikning með af naktri konu á sólarströnd. Þá fór ég að einbeita mér að því að gruna karlkennarana. Í gær kom flaska af freyðivíni, aftur með karlmannsbréfi og ég reyndi að þrengja hringinn um karlkennarana. En í frímínútum í dag kom Dúna íþróttakennari færandi hendi með ostakörfu. Needless to say þá komust íþróttakennarar ekki á blað yfir grunaða, slík var óhollustan….

Ég átti aftur á móti Siggu Steinbjörns að vini. Ég sendi henni ýmislegt smálegt sem ég hefði kæst yfir. Baðkúlu og krem, súkkulaði og jólaöl, servíettur og ljóð eftir Ingibjörgu Haralds og endaði á heimatilbúnu blúndunum mínum. Ég veit ekki hvort hana grunaði mig. Ég gaf lítið færi á mér, sendi alltaf tölvuprentuð bréf með en hugsanlega hef ég horft á hana full sakleysislega síðustu daga. Á morgun erum við svo að fara á jólahlaðborð svo vinnan er skemmtileg út í eitt þessa dagana. Ég tel samt niður hvað ég á eftir marga daga í kennslu þessa önnina. Þeir eru 12, þar af 10 fyrir jólafrí.

Í kvöld er LC með jólagleði, á morgun er laufabrauð í Akurgerði, á sunnudaginn er litla Strympið að spila á Glerártorgi. Það er í nógu að snúast. Ég hef ekkert gert í jólastússi, nema baka blúndurnar en það er ekki komið svo mikið sem hálft jólaljós upp. Aðallega vegna þess að ég nenni ekki að leita að seríunum. Strumpan er reyndar búin að fá jólafötin sín hátt og lágt svo það er þó nokkuð. Maður gæti meira að segja farið að taka mynd í kortið…