Stjarna er fædd

Það voru tónleikar í dag á Glerártorgi. Strumpan tilkynnti í morgun að hún ætlaði ekki að spila og ástæðan sem hún gaf upp var sú að það væru unglingar að spila með í hópnum. Það náðist að sannfæra hana um að það væri ekki ástæða til  að hræðast fiðluspilandi unglinga, það væri friðsemdarfólk. Hún lét því tilleiðast og tók annars vegar söngnúmer og svo ógurlegt fiðluspil. Síðasta fiðlulagið var reyndar meira svona „mæmað“ af því að það var óæft en maður spilaði nú samt eins og þetta væri bara minnsta málið. Þetta var ljómandi gaman, samtals fimm áhorfendur úr fjölskyldunni að dást að henni og afinn og amman úr Akurgerðinu létu sig meira að segja hafa það að sitja undir sellónemendum, víólunemendum og píanónemendum áður en kom að henni. Við fórum svo á kaffihús en þegar við vorum að tygja okkur til brottfarar komu þrír jólasveinar og fóru að syngja á sviðinu. Strumpan stóð fyrir framan í góðum gír (hafði reyndar hitt sveina í bænum í gær og náð að knúsa einn svo vel að fullorðnir stundu allt í kring) og söng eins og hún ætti lífið að leysa. Einn sveinkinn fór þá að ganga um og leyfa krökkum að syngja í hljóðnemann og þær voru tvær hlið við hlið (hin líka fiðlustelpa) sem tóku það með trompi. Á endanum var þeim boðið á svið, afhentur sitt hvor hljóðneminn og svo sungu þær tvö lög, Jólasveinar einn og átta og Skín í rauða skotthúfu. Eins og þær hefðu ekki gert annað. Og litla prikið söng bara býsna vel. Við foreldrarnir og Sigga amma alveg gapandi af undrun. Þetta gen kannast hvorugt okkar við, ég ímynda mér þó að það hefði mátt rækta það upp í mér en varla föðurnum… eller hur? 😉 Því miður höfðum við klikkað á myndavél og vídeókameru, enda komum við beint úr hundaheimsókn á Grísará og vorum alveg á síðasta snúning. Síminn hans Mumma bjargaði þó einhverju.

Helgin annars búin að vera með ágætum, afar settlegt jólakvöld hjá LC á föstudagskvöld, laufabrauð upp á gamla mátann í gær og feikigott jólahlaðborð á KEA sömuleiðis. Og vinna. Get ekki beðið eftir að fjarkennslunni ljúki…. og ég vona, þó að ég hafi ekki heyrt hvort það sé kominn eftirmaður, að ég sé laus frá og með janúar.