Héðan og þaðan

Tíminn líður bærilega þessa dagana. Mér liggur á að komast í frí :-/ enda með afbrigðum löt. Ekkert frí í sjónmáli samt, alveg heill mars eftir. Eitt og annað um að vera. Við hjónin fórum í leikhús á laugardaginn var, að sjá Fúlar á móti, með væntingarnar í botni, enda litlir aðdáendur meirihluta leikkvennanna. Það reyndist prýðis ráð því við komum bærilega sátt út aftur. Ótrúlegt hvað ég unga konan kannaðist við marga brandara frá sjálfri mér. Nú eða öðrum konum í kringum mig. Það mátti að minnsta kosti hafa gaman af þessu svona þessa kvöldstund, þótt vissulega sitji ekkert eftir.

Strumpan átti góðan Öskudag. Var indíáni, ég er alltaf voða glöð þegar hún finnur eitthvað sem ekki er of mikið púff og pífur. Fyrst var kötturinn sleginn úr tunnunni í leikskólanum og allir fengu púkanammi. Svo fór hún með ömmu á hennar leikskóla. Ég sótti hana svo og hún söng fyrir pabba sinn í vinnunni og þaðan heim til Anítu, kattapössunarkonu, sem hafði laumað heim nammipoka og Frissa handa Sóleyju úr TM. Að lokum endaði hún á balli á skautum og fékk prins póló. Afraksturinn því bærilegur – svona mikið nammi hefur Strumpa ekki átt áður. Hún fékk að gæða sér á fyrstu bitunum á miðvikudaginn en geymir svo rest og lofaði hátíðlega að gefa foreldrum sínum með sér. Maður heyrir ýmsar sögur af lélegum söng og litlum metnaði. Ég skil ekki af hverju búðir og fyrirtæki reyna ekki að gera meira úr þessu. Verðlauna þá vel sem leggja á sig en láta lata unglingsstráka sem varla nenna að finna búninga, hvað þá æfa lög, bara eiga sig.

Annars er bara hálfur mánuður í afmæli. Mikil tilhlökkun á bænum og farið að huga að boðsgestum. Mamman sker niður gestalistann eins og hægt er, fannst þetta ósköp hæfilegt í fyrra með fimm gesti. Það eru háleitar hugmyndir um hafmeyjuköku en þær dæmast sem betur fer á húsbóndann.

Sumarfríið er farið að lokka. Við keyptum okkur flug héðan strax eftir að vinnu lýkur í júní og verðum í eina 10 daga, dreifum kröftum okkar á DK og Svíþjóð. Annars er ekkert ákveðið nánar, eigum eftir að athuga hvort við náum að kría út heimboð á Skagen, sem væri ósköp ljúft og svo var Strumpunni lofað að það yrði komið við í Legolandi. Strumpan verður þá útskrifuð úr leikskóla og við mæðgur eyðum júlí og ágúst saman. Síðan hefst alvaran í 1. bekk.