Og svo fjölgaði…

Þá er Sunna Bríet orðin þriggja daga og ekki seinna vænna en að skella inn smá fæðingarsögu. Með öðrum orðum, aðeins þeir huguðu halda hér áfram … grafískar lýsingar af fæðingu 🙂 .

Það var skrýtinn mánudagurinn, dagurinn sem ég var búin að ganga lengur með barn númer 2 heldur en barn númer eitt. Eitthvað sem ég hafði eiginlega ekki átt von á. En þar sem flotta dagsetningin var hvort sem er næsta dag, þá var það að öðru leyti í góðu lagi. Ég ákvað að taka gamalt trikk á mánudagskvöld, skellti mér í bað með lavenderolíu, en það hafði ég einmitt gert kvöldið áður en Sóley fæddist. Gat ekki varist tilhugsuninni um að líklegast væri ég að eyða tímanum í óþarfa þegar ég stillti vekjaraklukkuna fyrir næsta morgunn. Og viti menn, ég vaknaði korter í þrjú um nóttina, ekki við verki heldur hið hefðbundna næturrölt á klósettið en þegar þá kom í ljós að það var eitthvað á seyði. Legvatnið farið að seytla og vísir að verkjum. Ég lagðist aftur upp í rúm enda var þetta allt innan rólegheitamarka. Það leyndi sér hins vegar ekki að það var raunverulega eitthvað að gerast svo ég hnippti í Mummi svona hálftíma síðar og sagðist ætla að heyra í Möllu (ljósmóðurinni). Hringdi í hana, vissi að hún var á næturvakt á FSA og hún boðaði komu sína fljótlega, var að ljúka við fæðingu og ætlaði aðeins að ganga frá og bíða eftir afleysingu. Malla var komin um hálftíma síðar, sirka klukkustund eftir að ég hafði vaknað. Þá var ég búin að vera á röltinu, taka tímann á milli verkja, sem voru þetta fimm mínútur eða rúmlega það, en verkirnir voru alltaf stuttir svo það var lítið mál að þola það. Möllu fannst samt að ég væri komin vel í gang og það var ákveðið að drífa vatni í laugina og síðan athugaði hún útvíkkun og hún var þegar orðin sjö og farið að greina í kollinn. Malla hringdi í aðstoðarkonu og Mummi fljótlega í Kittý, sem hafði verið fengið það verkefni að sinna Sóleyju á meðan fæðingunni stóð. Ég stóð bara og hékk fram á baðvask og æfði öndun. Mummi vakti svo Sóleyju, það þurfti ekki að hafa sérstaklega fyrir því, svona miðað við venjulega morgna og hún var rösk fram að dást að móður sinni … Ég skellti mér síðan í laugina þegar var komið vel af vatni í hana, þá voru hríðarnar orðnar ansi harðar og æðislegt að komast í vatnið. Ég hékk fram á brúnina í lauginni, kreisti Mumma í bak og fyrir á meðan áhorfendurnir komu sér fyrir í sófanum og fylgdust með. Sóley var ótrúlega róleg, dáðist raunar mjög að sjálfri sér, sagðist aldrei hafa verið svona þolinmóð á ævinni, ég hugsa að það fari nærri lagi. Hún fann mikið til með mér en ég reyndi að hughreista hana á milli hríða að þetta væri bara vont í smá stund í einu en síðan væri allt í lagi. Malla var við laugina og hvatti mig til að láta undan ef ég væri komin með rembingsþörf, það var mikill léttir að mega rembast þó svo það væri ekkert að gerast. En eftir nokkra stund var ljóst að það mátti fara að taka á svo Mummi var kreistur í klessu og krílinu ýtt út. Höfuðið kom í rembingi tvö, en þá kom hlé á milli hríða og það var víst skondin sjón að sjá hausinn bíða eftir að meira gerðist. Aðstoðarkonan gaf mér hríðarörvandi í nefið og í næstu hríð kom krílið út og ég fékk hana upp á bringu. Klukkan var 4.56, nokkurn veginn sami tími og stóra systir kom. Smá ruglingur varð hjá móðurinni í byrjun þegar hún athugaði kynið, því bæði var naflastrengurinn fyrir og kynfærin  svo bólgin að mér fannst í smá stund að ég væri að horfa á pung svo ég sagði að þetta væri líklega strákur. Enginn annar sá neitt, svo við greiddum úr flækjunni og skoðuðum nánar og þá sást að þetta væri stelpa. Hún var alhvít af fósturfitu og mjög bólgin í framan svo það var ekki sjón að sjá mann. Áhorfendur dreif að, Sóleyju fannst þetta frekar ókræsilegt allt saman, ekki síst naflastrengurinn. Mummi klippti fljótlega á milli og Sóley fékk að tilkynna viðstöddum nafnið. Síðan fékk Mummi Sunnu í fangið og ég fæddi fylgjuna, enn eitt sem Sóleyju fannst alveg hrikalega ógeðslegt! Vatnið í lauginni var farið að vera lítt kræsilegt svo ég færði mig inn í rúm og Sunna Bríet kom og fékk að drekka. Sýndi strax að hún væri keppnis, þurfti engar leiðbeiningar um hvernig þetta færi fram.  Malla skoðaði mig síðan, kom í ljós að það var ekki þörf á neinum frágangi. Sunna var loks vigtuð og mæld og reyndist vera 3900 grömm og 53 sentimetrar. Hafði svona aðeins lengd og þyngd umfram stóru systur. Síðan fóru aðstoðarmenn að drífa sig heim, Sóley ætlaði fyrst ekkert aftur að sofa og alls ekki að tala um að taka sér frí í skólanum þegar svona stórtíðindi voru á ferðinni. Hún sofnaði samt ansi snögglega inni í stofu en við hin þrjú hreiðruðum um okkur í hjónarúminu. Sóley var svo ræst til að fara í skólann og foreldrarnir fóru að hringja út tíðindin.  Morguninn leið í algjörum rólegheitum, ég skaust að vísu með fiðluna til Sóleyjar því hún átti líka að fara í fiðlutíma, en hafði verið svo klifjuð af dóti um morguninn að það var ekki á bætandi. Venjulega er ég með í fiðlutíma og tek því fiðluna með en þarna fékk ég leyfi til að vera ekki í tímanum. Fékk frekar skrýtið augnaráð, bæði frá kennaranum hennar Sóleyjar og Tiinu fiðlukennara, hvort ég hefði ekki verið að eignast barn áðan?? En ég var bara í góðum gír, enn sjálfsagt ofur high á endorfíni 🙂 . Afinn og amman komu svo og litu við í hádeginu en Sunna var ekki mjög vakandi. Amma fékk þó að grípa aðeins í mann. Seinni partinn komu svo Kittý, Jón og Ingunn, Kristín og Hanna, Ármann og Eva. Annars var dagurinn rólegur, Sóley fór á sundæfingu svo hún var lítið heima. En fékk að halda aðeins á litlu systur þegar Jón og Ingunn voru, það var mikið atriði.

Fyrsta nóttin var síðan ansi erilsöm. Sunna ákvað að nota alla þjónustu sem í boði var, drakk út í eitt og sendi tvær kúkableiur. Svo móðirin var frekar rislág annan daginn en fékk þó að leggja sig vel og pabbi og Sunna dunduðu sér á meðan. Fórum reyndar á FSA í læknisskoðun, það var mikið gott að lúra í bílnum en ekkert gaman að því að láta pína sig. Læknisskoðunin kom vel út, þó útilokaði barnalæknirinn ekki að annar fóturinn væri svolítið laus í mjaðmaliðnum en það á að skoða nánar í næstu skoðun á mánudag. Sú minnsta var síðan alveg ofurgóð allan þennan dag, svaf eins og engill og drakk þess á milli. Afi og amma litu aftur, og Kristín, Árni og Sveinn Áki líka. Nóttin var eins og klippt úr handbók, Sunna drakk og svaf og pípti ekki einu sinni þegar var skipt á bleiu, það var helst að roparnir kæmu ekki eins og kallaðir og ollu smá óróleika.  Sömuleiðis var gærdagurinn framan af mjög góður en þegar leið á kvöldið fór hún að verða óróleg og aftur ljóst að mallinn væri pínu óhress. Það stóð svo fram eftir nóttu, hún drakk vel en roparnir létu ævinlega á sér standa og maginn fýldur eftir því. Það lagaðist þó seinni part nætur þegar maður losaði allt sem hægt var svo það var allt með kyrrari kjörum undir morgun.

Stóra systir hefur almennt staðið sig vel. Hún er afar hrifin af þeirri litlu, finnst hún vera óskaplega falleg og sagði mér í gær að nú ætti hún systkin og þyrfti ekki að öfunda aðra af því lengur. En hún á það til að vera pínu harðhent, potar í Sunnu til að fá viðbrögð og aðstoðar mjög veeeel, stingur snuddunni upp í systur við minnsta píp, nú eða býst til að rífa upp brjóstin á móður sinni. Kettirnir hafa hins vegar tekið öllu með algjörri ró. Þeim blöskrar að vísu stundum þegar pípir hátt og Úlfur hefur einstakt lag á að vera þar sem hann er rekinn burt stuttu síðar, í bílstól, á skiptiborði, í sófa þegar á að fara að gefa… svo það mæðir mikið á honum. Foreldrarnir finna hins vegar mikinn mun á því að sinna barni númer tvö, allt er miklu afslappaðra og hefur gengið rosalega vel. Mikil gleði hjá báðum með hversu vel tókst til með heimafæðinguna og varla hægt að óska sér að upplifa hana jákvæðar.