Nýjar Skottufréttir

Helgin hefur bara liðið í einni sælu, ég vakna úthvíld eftir næturnar, því það er tekinn góður svefn, með smá mjólkurpásum til að fylla á. Dagurinn líður síðan í algjörum rólegheitum, þar sem Skottan sefur mest en fyllir svo vel á inni á milli. Við fengum aðeins heimsóknir um helgina, á laugardaginn litu Arnheiður, Gylfi og Eyþór, auk Elísu með Kristján Sölva. Sunna Bríet svaf á sínu græna og lét sér fátt finnast um gestakomur. Það hitti betur á í gær þegar Hanna, Ármann og Kittý litu inn einmitt þegar var rétt búið að fylla á tankinn og daman enn vakandi, sömuleiðis náðu Harpa og Hannes að sjá hana vakna en ekki mikið meir því það lá mjög á að fá sér í gogginn og enginn tími til að glenna sig framan í gesti. Halli afi leit svo inn og það var einmitt matartími þá og loks afi og amma inni á milli ábóta um kvöldmatarleytið, svo allir gestir gærdagsins fengu nú að sjá almennilega framan í mann.

Í dag var síðan læknisskoðun hin síðari. Það þurfti að vekja Sunnu upp í morgun svo hún næði að næra sig og sjæna sig fyrir skoðunina. Það var annar læknir sem skoðaði hana núna og hann fann engin merki um að mjöðmin væri laus. Sunna var búin að bæta á sig 35 grömmum síðan í fæðingu eða tæpu prósenti 🙂 en sem betur fer er hún eina manneskjan á þessu heimili sem stendur í svona stórræðum. Hún var að minnsta kosti útskrifuð með glans og fær svo bara heimsókn frá ungbarnaverndinni í næstu viku. Þá er spurning hvort hún slær met stóru systur sem þyngdist um 50 grömm á dag fyrstu vikurnar eftir heimkomu.