Nytsamlegur orðaforði

Skottan er bráðþroska mjög þó ekki hafi henni tekist sem skyldi að endurtaka eftir systur sinni „það fer nú að verða verra ferðaveðrið“. Hún hefur hins vegar tileinkað sér tvö mjög skýr orð, annars vegar nei, sem hún nýtir ansi mikið, hins vegar er henni tíðrætt um Egon. Enn höfum við foreldrarnir ekki áttað okkur á hvaða Egon þetta er, tveir eru grunaðir, báðir úr kvikmyndum. Hins vegar munum við ekki eftir að hafa horft á Ghostbusters eða Olsen gengið með henni, svo það dregur aðeins úr kenningunni.

Við fórum með hana í mælingu á föstudag. Þar kom skýrt fram að hún hefur erft vaxtarlag beggja foreldra, hún lengist nefnilega bara en þyngist ekki, nema þessi örfáu grömm sem fara í aukasentimetra. Þetta hefur einn ókost í för með sér, taubleyurnar hafa tilhneigingu til að leka meðfram lærunum sem eru svo ósköp pen. Móðirin er með þá kenningu að mjólkurframleiðslan sé að mestu leyti undanrenna, að minnsta kosti sýndu mælingar að hún hafði þyngst meira en dóttirin, svo ekki fer frá henni fitan. Skottunni fer hins vegar fram í hegðun … öllu heldur virðist magakveisan vera horfin, þó tekur hún af og til skælukvöld, gjarnan ef annað foreldrið bregður sér af bæ. Hún er að öðru leyti algjör B manneskja, fer seint að sofa, amk aldrei fyrir miðnættið og stundum er klukkan að nálgast tvö þegar manni þóknast að leggja aftur augun (það er samt hægt að ná sér í orkublund svona í kringum miðnættið, til að ná örugglega að vaka lengur) og hún verður foxill þegar er gefið í skyn að hún eigi að fara að sofa. Svo kannski var þetta ekki bara aðskilnaðarkvíði þarna um daginn, heldur verið að beita neitunarvaldi á svefninn. Á góðum dögum nær svo móðirin að sofa út, en fara samt fyrr á fætur en Skottan. Á vondu dögunum nær móðirin að sofa út en vaknar um leið og dóttirin.

Jólastússið er byrjað að gera lítillega vart við sig. Við gerðum laufabrauð í Akurgerði um síðustu helgi. Þar var óvenju fjölmennt, Unnur var með sína tvo grísi líka, það var kátt á hjalla hjá stóru frænkunum. Sóley fékk að fara með þeim í bæinn að sjá kveikt á jólatrénu á meðan foreldrarnir stóðu í útbreiðslu og skurði. Ég skar lítið þetta árið, bjargaði tveimur kökum sem höfðu farið aðeins úrskeiðis hjá dótturinni svo ég skar í raun ekkert sjálf. Þarf að bæta úr því hjá tengdamömmu, amk að henda í eins og eitt jólaherðatré. En dóttirin hafði tekið miklum framförum frá í fyrra og skar út eins og hershöfðingi, nema þegar metnaðurinn fór aðeins með mann.

Eins og venjulega erum við þó síðust allra í götunni að setja jólaljós í glugga (ekki búið enn), en þetta árið erum við amk búin að taka jólamyndina og ég er aukinheldur búin að kaupa þrjár jólagjafir og búin að ákveða nokkurn veginn hvað eiginmaðurinn fær. Oft hefur staðið verr á. Við fórum á jólatónleika og -ball suzukinemenda á laugardaginn (eða ég stakk af í jólahlaðborð með samstarfsfólki) og Strumpan spilaði svo líka á Glerártorgi. Í gær fórum við loks í Mývatnssveit að sjá jólasveinana í Dimmuborgum, það hefur verið á dagsskrá síðan þeir fóru að mæta á svæðið en aldrei unnist tími til. Að vísu vorum við svo sein á ferðinni að við náðum þeim bara í mýflugumynd en Strumpan var hæstánægð eftir sem áður. Þeir eru ansi flottir og gaman að sjá þá loks.

Það er ýmislegt framundan, jólasýning hjá Strumpu í fimleikunum á fimmtudag, jólakortaskrif hjá ungum og öldnum, að ógleymdri árvissri ferð í Jólahúsið og ætli ég reyni ekki að komast í Bakgarðinn líka, er smátt og smátt að koma mér upp safni af norrænu jólaskrauti sem fæst þar. Nú og baksturinn maður, ég skellti í blúndur á mánudaginn var, svona til að heimavinnandi húsmóðirin hefði eitthvað á afrekaskránni en við hjónin ætlum bæði að standa í Sörubakstri og á að huga að því á næstu dögum.

Join the Conversation

1 Comment

  1. Gaman að heyra að gengur vel – það er örugglega fínt að eiga B barn (ekki að ég hafi nokkurntíma prófað það 🙂 ). Hér verður farið í laufabrauð eftir rúma viku, sem sagt korter í jól gerum við það – hér er ekki jólastressinu fyrir að fara, búið að gera flest og annað sem ekki hefur verið gert gerist kannski seinna, nú eða alls ekki 🙂

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *