Minning um mann

Síðustu daga, frá því að ég frétti af andláti Róberts samkennara og fyrrverandi ensku- og sögukennara míns hafa leitað ýmsar minningar á hugann. Hann kenndi mér ensku fyrsta veturinn minn í MA. Eitt af því fyrsta sem hann þurfti að leiðrétta hjá mér var óhófleg notkun á „gonna“. Enskunámið mitt hafði nefnilega farið að talsverðu leyti í gegnum dægurlagatexta og þar kom þetta víða fram … I’m gonna love you eða hvað var nú sungið um … amk var mér afar tamt að nota þessa styttingu. Þetta þótti Róberti ekki boðleg enska og gerði strangar athugasemdir í stílunum mínum. Síðan hafði ég hann sem sögukennara í þriðja bekk. Þá var framan af sögukennslunni búið að mata okkur all svakalega á glósum á töflu en þannig vann Róbert ekki. Hann talaði. Og ef við vildum eiga glósur urðum við að gjöra svo vel að hlusta og skrifa niður eftir honum. Það var afar gagnlegt og góður undirbúningur fyrir háskólann, svo ekki sé minnst á að kennslan var meira lifandi fyrir vikið. Ekki má gleyma að öll mín skólaár var Róbert leikinn á árshátíð skólans. Ég var í leikfélaginu fyrsta árið mitt og það var mikil lukka að endurtaka atriðið með Róbert frá fyrra ári, þá lék Árni Friðriks hann og fór með söguna af Maríu Antoinette. Þetta atriði lék Árni öll sín ár í skólanum og mætti að auki eftir að hann útskrifaðist og tók það. Ekki held ég að Róbert hafi tekið það nærri sér, hefur eflaust haft húmor fyrir þessu.  Síðan kynntist ég auðvitað annarri hlið á honum, eins og gefur að skilja, þegar ég fór sjálf að kenna við skólann. Þá varð maður fljótt var við að hann var mikill áhugamaður um skólastarf og kennslu og mikill prinsippmaður. Hann vildi hafa hlutina í föstum skorðum og var ófeiminn að láta skoðanir sínar í ljós. Ég sá líka aðra hlið á honum þegar hann leiðsagði fyrir okkur kennara um Skaga, en þangað fór hann iðulega í veiðiferðir á sumrin. Það var gaman að hlusta á frásagnir hans. Einhverju sinni ræddum við líka kattauppeldi. Hann komst að því að ég ætti ketti og við ræddum þá góða stund. Meðal annars spurði hann hvort kettirnir mínir fengju að sofa uppi í rúmi og ég sagði svo vera. Þá játaði hann, ekki laust við að vera skömmustulegur, að það fengi kötturinn hans líka, en alls ekki á koddanum. Þar dró hann mörkin í uppeldinu.

Það er eftirsjá að Róbert. Hann var sérstakur karakter og litaði sitt umhverfi. Kennarar harma ótímabært brotthvarf hans. Gamlir nemendur minnast hans með hlýju og mikil sorg ríkir í skólanum. En minning hans lifir.

2 replies on “Minning um mann”

  1. Þetta eru virkilega dapurleg tíðindi. Róbert var frábær kennari og ég man sérstaklega hversu nákvæmlega hann útskýrði mikilvæg hugtök eins og lýðræði án þess að láta sínar eigin skoðanir lita umfjöllunina. Slík kennsla, sem beinir fólki á brautir gagnrýninnar hugsunar, er ómetanleg. Hann var góður maður og skólinn okkar er mun fátækari eftir fráfall hans.

  2. Hef einmitt mikið hugsað til hans, var líka í ensku og sögu hjá honum á sínum tíma. Róbert var góður kennari og lærifaðir – alveg örugglega lærði maður miklu meira hjá honum heldur en maður gerði sér grein fyrir á meðan á kennslunni stóð. Mikil eftirsjá af merkum manni. Knús til ykkar allra fyrir norðan.

Comments are closed.