Menning og listir

Þá er loks komið að færslunni um allar bækurnar sem ég hef lesið undanfarið og svo bíó- og leikhúsfréttir. Það varð til félagslíf aftur í mánuðinum, fyrst fórum við að sjá Stúlkuna sem lék sér að eldinum í bíó og geymdum Skottu hjá ömmu á meðan. Fannst myndin góð, enn er hægt að dást að því hvað er hægt að laga bókina vel að kvikmyndaforminu án þess að maður sakni einhvers stórvægilegs, sem er vandaverk þegar maður er nýbúinn að lesa bókina. (Nú horfðum við til að mynda nýlega á Harry Potter 4 eftir að við Sóley Anna kláruðum að lesa hana og ég reytti hár mitt og skegg af ergelsi yfir því sem var breytt og sleppt þar). Skottan stóð sig vel hjá afa og ömmu – eða þau kvörtuðu að minnsta kosti ekki hástöfum …

Næsta félagslíf var leikhúsferð, enn erum við með árskort og fyrsta sýningin þar var Lilja, leikrit byggt á Lilya 4ever. Mumma kveið fyrir sýningunni enda efnið frekar niðurdrepandi, en ótrúlega „aktuelt“ um þessar mundir hér heima. Mér fannst sýningin góð en leið fyrir samanburðinn við myndina, þó hún sé svo sannarlega ekki í fersku minni. Ég man bara enn tilfinninguna sem sat í mér eftir að horfa. Skottunni var komið fyrir hjá Öddu ömmu og Gylfa afa með pela og græjur. Þegar við komum að sækja hana bárust orgin út á götu … en sem betur fer, ef afi og amma eru ekki að fegra neitt, þá hafði það ekki staðið mjög lengi og hún hafði meira að segja dottað svolítið.

Síðan tók ég mitt eigið prívat félagslíf, fór á tónleika á laugardagskvöldið með Nýdönsk. Mummi fékk ekki brottfararleyfi svo að við þyrftum ekki að leita enn að pössun, enda nóg framundan af öðru, en það þýddi að ég fór ein. Það var svo sem í lagi, ég kom mér bara fyrir undir vegg og lét lítið fyrir mér fara. Hringdi reyndar í Óla bróður til að hafa smá félagsskap 🙂 en hefði auðvitað viljað hafa Mumma, Önnu Steinu eða Árnýju með líka, svona upp á gamla tíma. Tónleikarnir voru auðvitað frábærir, mínir menn klikka ekki á neinu nema stöku texta 🙂 . Skottan var ekki sátt, þó voru mjólkurbirgðir heimilisins allnokkrar en ekkert dugði og mótmæladeildin hefði þurft að hafa auka manneskju á vakt.

Af lestri er það helst að ég ligg í norrænum bókmenntum og þá allra helst sænskum krimmum. Wallander er reglulega á náttborðinu núna, ég kann vel að meta hann og við hjónin erum í þessu saman sem er ósköp gaman. Höfum tekið upp á þeim sið að fara á Amtið fyrir helgar og taka einn Wallander, tókum reyndar óvart Wallander seríu síðast, sem tók fjórar klukkustundir að horfa á, en það bjargaðist. Serían var einmitt eftir bók sem við lásum nýlega, Fimmta konan, og stóð ekki undir væntingum því þar voru mjög undarlegar og óþarfa breytingar. Hins vegar var leikarinn sá, Rolf eitthvað, miklu líkari okkar hugmyndum um Wallander, hann Krister eða hvað hann nú heitir, er full mikill gæi.

Aðrir sænskir krimmar eru auðvitað Stieg Larsson, bíð eftir þriðju, Lisa Marklund sem ég tók mjög skarpt í sumar, sem og Camillu Läckberg en aðrir minna þekktir eru Håkan Nessar, sem ég var að enda við að lesa á dönsku (Menneske uden hund), Björn Hellberg sem ég las á sænsku! og Mari Jungstedt sem ég hef keypt á dönsku og skrifar sögur sem gerast á Gotlandi. Mér finnst þetta voða skemmtileg lesning allt.

Svo las ég loks Berlínaraspirnar, Kuðungakrabba og Á grænum grundum, sem eru norskar bækur eftir Anne B. Ragde. Þær heilluðu mig alveg, og Arnheiður benti mér svo á að Amtið ætti þætti sem hefðu verið gerðir fyrir norska sjónvarpið. Ég tók þá og æfði mig svolítið í norsku í leiðinni. Þeir verða víst sýndir á RÚV í vor en ég mæli frekar með bókunum, þó að þeir hafi verið fínir.

Í sumar tók ég líka svolítið vælutímabil í bókum. Las Á ég að gæta systur minnar, Kona fer til læknis, Viltu vinna milljarð, 19 mínútur og álíka bækur. Grét út í eitt – en ég kann prýðilega við það svo það kom ekki að sök. Þetta var svona uppsafnaður listi af bókum sem ég hafði ætlað að lesa og tók mig loks til og pantaði þær á bókasafninu til að þetta kæmist í verk.Af þessu má sjá að ég og Amtsbókasafnið erum prýðilegir vinir.

Héðan af heimilinu er allt gott. Skottan fór í sex vikna skoðun fyrir 10 dögum, kom ágætlega út nema hvað þyngdaraukningin lét sig eitthvað vanta. Man ekki alveg töluna (og hún var ekki skrifuð í bókina) en það voru tæplega 200 grömm sem höfðu bæst við. Ekki sérstaklega mikið. Hins vegar var hún búin að lengjast um 5 sentimetra frá fæðingu og var 58 sentimetra. Samanburðurinn við systur var ekki jákvæður, Skotta var álíka þung og Strumpan fjögurra vikna. Svo taldi hjúkrunarfræðingurinn að hún væri með magakveisu miðað við lýsingar okkar, hún byrjaði tveimur dögum eftir fjögurra vikna skoðun. Við erum að gefa henni Minifom dropa og þeir virðast eitthvað hjálpa, að minnsta kosti tekur þessi ljóti púki Skottuna ekki alveg yfir. En það þarf oft að hafa fyrir henni á kvöldin, henni er ekki sama hvernig á henni er haldið og verst af öllu virðist vera að sitja í fanginu á þeim sem horfir á sjónvarpið! Það er þó lítil fórn á meðan daman sefur að öðru leyti vel. Hún ætlar að vísu að fara að venja sig á að sofa uppí – kvartar þannig þegar hún er lögð í vöggu að móðirin sér aumur á henni (reyndi að vísu þrjóskukeppni í klukkutíma í fyrrakvöld en tapaði). Hún splæsir ekki brosum svo það er sérstakur heiður að fá þau og hlær alls ekki að endurteknum bröndurum nema í einstaka tilfelli. Það á að halda nafnaveislu fyrir hana á laugardaginn. Opið hús 🙂 .

4 replies on “Menning og listir”

 1. Hefði viljað mæta í nafnaveisluna, en sendi kærar kveðjur – verð með mín í svínaflensusprautu þá 🙂 (afmælisdagur pabba).
  Ertu ekki líka búin að gráta yfir drengnum í röndóttu fötunum – kjörin bók til að hágráta yfir, hef gaman að því líka. Á kuðungakrabbana og þær, keypti þá síðustu heima um daginn og var að klára – þær eru æði. Hef virkilega gaman af svona norrænum fjölskyldusögum. Keypti líka Camillu, tvær nýjustu – á þær allar og hef haft mjög gaman af, líka Lísu en þekki ekki hina sem þu nefndir, nema auðvitað Wallander – á hann allan.
  Hefði svoleiðis dýrkað að vera með þér á Nýdönsk – það kemur að því aftur 🙂 Stefnum að því 🙂
  Vonandi fer kveisan að lagast svo öllum á heimilinu líði betur, gangi ykkur vel í baráttunni með hana og líka við rúmið 🙂
  Gaman að heyra frá þér eftir allt of langt hlé 🙂
  Heyrumst,
  Árný

 2. Gaman að fá blogg frá þér 🙂
  Hvernig hefurðu tíma til að lesa svona mikið? Ég er stundum margar vikur að berjast í gegnum eina bók. Þú kannski notar tímann sem ég hangi á netinu til að lesa 😉

 3. Þetta er nú upptalning frá því snemma í sumar, þá hafði ég nú ansi góðan tíma til lesturs. Nú eru það svona ein – tvær bækur í viku að meðaltali og bara af því að ég er með spennandi efni. Árný, ég grét yfir Stráknum í fyrra en horfði á myndina í síðustu viku, hún var reyndar líka mjög góð. Ekkert mislukkað þar, bara pínu skrýtið að horfa á Lupin leika pabbann.

 4. Rakst á þetta blogg eftir krókaleiðangur á netinu:D
  Ég mæli með Jo Nesbø – ein hefur verið þýdd á íslensku (Rauðbrystingur) en ég á 4 á dönsku eftir hann ef amtið hættir að eiga ólesnar bækur:D á reyndar ýmislegt annað líka td Nítján mínútur sem er eftir Jodi Picoult (My sisters keeper) sem mér finnst ótrúlega góð.

Comments are closed.