Nýjar tölur í hús

Þá er annarri heimsókninni frá ungbarnaverndinni lokið og reyndist Sunna Bríet vera búin að þyngjast um hálft kíló á þessum tveimur vikum. Við Mummi vorum búin að skiptast á spádómum og ég hafði töluna rétta upp á gramm 🙂 4650 grömm. Það er eilítil framför frá því síðast … haha, þá var hún búin að þyngjast um 240 grömm eftir viku. Daman hefur verið býsna þæg undanfarna daga eftir að hafa tekið reglulega hús á kvörtunardeildinni nokkra daga þar á undan.

Við fórum í heimsókn í sveitina í gær og þar fékk hún algjöra sveitaskírn, Krummi náði að laumast til að skella á hana blautum kossi. Hún var agalega þæg í fanginu á langömmu á milli þess sem þorstinn greip kroppinn. Það gekk hins vegar á ýmsu hjá stórvinunum Sóleyju og Krumma. Sóley fór nefnilega út og ætlaði að líta á hestana, það var verið að hreinsa hófana en Krummi elti og endaði á að stöðva för hennar með bölvuðum látum svo hún sneri sár til baka (meira á sál en líkama) og bölvaði Krumma í sand og ösku. Óskaði honum að lenda í læknum og drukkna. Þegar við fórum heim var hins vegar að gróa um heilt aftur, að minnsta kosti var hann knúsaður í bak og fyrir, einhvers staðar hefur Sóley heyrt að það eigi ekki að skilja í illu.

Sóley er annars algjör pæja núna, langþráð göt í eyru komu loks fyrir 10 dögum. Móðirin fór að sjálfsögðu með dóttur sína í Sigtrygg og Pétur, sem heita það reyndar ekki lengur, eins og hún sjálf hafði gert fyrir einum 30 árum eða svo. Þetta reyndi á þolrifin, einhverjar stelpur í skólanum höfðu fullyrt að þetta væri alls ekki vont svo það kom heldur betur á óvart þegar það reyndist bara vera býsna vont. En sælan er mikil svona eftir á og enginn sleppur við að dást að nýja útlitinu.

Við fengum gesti að sunnan í síðustu viku. Óli, Eygló og Gunnsteinn Þór. Stóri frændi var ansi stór í samanburði við litlu frænku. Hann var mjög athugull og skemmtilegur, Óli gat ekki ímyndað sér að hann hefði nokkurn tímann verið svona lítill og ég get varla ímyndað mér að Skottan verði einhvern tímann svona stór.

Enn er auðvitað lítið um útstáelsi en það stendur til nokkurra bóta. Við hjónin erum enn að gæla við að komast í bíó að sjá Stúlkuna sem lék sér að eldinum en ef það hefst ekki er stefnan að minnsta kosti tekin á leikhús eftir hálfan mánuð og ég ætla að sjálfsögðu á Græna hattinn eftir þrjár vikur en þá eru tónleikar með Nýdönsk. Ekki seinna vænna en að huga að aukamjólkurbirgðum.