Skammarlegt hlé

Það stóð aldeilis ekki til að taka sér svona langt blogghlé og endar þá auðvitað á því að ég geri allt of langa færslu til að bæta upp fyrir letina. Tíminn flýgur þegar maður skemmtir sér og það sannast vel þessa daga. Ég er einhvern veginn með óvenju mörg járn í eldinum og þyrfti helst að koma mér upp aðgerðalista til að ná yfirsýn og muna allt. Ég er að vinna að undirbúningi ættarmóts í sumar (sem er reyndar mjög gaman og styrkir stoðum undir þá tilfinningu mína að maður sé ansi vel uppalinn í ættfræðinni hjá afa kallinum … ég virðist hafa bestu yfirsýnina  yfir ættina, svo ég klappi mér … og afa … aðeins á bakið). Óli bróðir er að grauta í niðjatalinu, að minni ósk og ég hef klárlega fundið réttan mann í jobbið því hann fer hamförum. Síðan er í nógu að snúast í LC, líður að stjórnarskiptum, þá hætti ég að vera formaður í klúbbnum mínum en í staðinn er ég á leið í landsstjórn LCI, sem vefstjóri, en ekki hvað? 🙂 Nú, svo styttist í afmæli hjá Strumpunni og byrjað að huga að því. Ég er líka komin með einn fyrstubekking í aukatíma og lít aðeins í vinnu í MA við gerð nýrrar námskrár svo já, tíminn flýgur.

Þær systur braggast og dafna og taka framförum. Strumpan mín stendur sig vel í fiðlunáminu, farin að læra veigameiri lög og er oftast áhugasöm. Áhuginn á íþróttunum er meira upp og ofan, sérstaklega er hún misvel upplögð að fara í fimleika en þvertekur fyrir að hætta. Hún er líka ánægð í skólanum og æðir áfram í heimavinnunni, gerir hana gjarnan á skrýtnum tímum finnst móðurinni. Hún var ánægð með öskudaginn, var í indverskum fötum sem Sigrún vinkona okkar færði henni fyrir tveimur árum og var mjög sátt í þeim, sem betur fer, því í búðum bæjarins fékkst ekkert nema drasl og móðirin betri í mörgu en saumaskap. Hún ætlar hins vegar að standa sig betur að ári og panta helst búning að utan (og muna eftir því með nægum fyrirvara…)

Skottan verður æ meiri manneskja, er kát og athugul en ekkert fyrir það að aðrir en foreldrarnir séu mikið að halda á henni. Þannig eru afi og amma í Holtateigi á frekar svörtum lista og fleiri á mjög gráu svæði. Það er helst að hægt sé að halda á henni þannig að hún vísi frá viðkomandi. Hún er farin að velta sér, fyrst af maga á bak um miðjan janúar og svo í gær af baki yfir á maga. Hún er búin að fá kopp og er reglulega í æfingarbúðum enda hefur hún slysast með sendingar í hann þrisvar sinnum. Við vorum í vigtun og sprautu á mánudag og daman heldur sér í lengdinni, er tæpir 68 sentimetrar en dalar enn í þyngdinni, ekki nema ríflega 6,3 kíló, ríflega hálfu kílói léttari en Sóley var á sama aldri. Hún er ekki farin að borða enn, enda hefur hún það ágætt þrátt fyrir að það sé mest undanrenna sem kemur frá móðurinni. Við mæðgur erum komnar í mömmuleikfimi, þá liggur Skottan á dýnu og dáist að því hvað mamma hennar stendur sig vel og unir sér bærilega við það. Svo höldum við foreldrarnir endilega að það fari að bresta á með tönnum, erum reyndar búin að halda það í nokkrar vikur 😉 en margt sem bendir til þess að það styttist.

Við fjölskyldan erum búin að panta okkur utanlandsferð í sumar, ætlum í tveggja vikna afslöppun í sumarbústaðinn og ætlum að hafa það rosalega gott. Kristín og Árni verða með okkur fyrri vikuna og við hlökkum mikið til. Ég fæ smá útrás fyrir Danmörkina en bara svona lágmarks til að ég haldi eitthvað lengur út, við ætlum að eyða síðasta deginum í Kaupmannahöfn.

Þá segi ég þetta gott í bili og lofa (aðallega sjálfri mér) að það líði ekki svona langur tími þangað til næst. (Ég er nefnilega að lesa í gegnum gamalt blogg og það er frábært fyrir mann sjálfan að lesa það).