Enn nær því að verða Dani

Ég keypti mér notað Hagkaupshjól í gær. Og bloggaði um það. En bloggfærslan týndist. Súrt. Anyways, það er bleikt og er ágætt sem slíkt, virðist heldur skárra en Hagkaupshjólið mitt heima. Það var skondið að fara að skoða það, seljandinn býr nefnilega í „gamla“ hverfinu okkar. Við gátum sem sagt séð hverfið sem við hefðum átt að búa í og Sóley sá skólann sem hún fer í til að byrja með. Ég hjólaði svo heim, alla 11 kílómetrana, hjálmlaus að hætti Dana. Í indælu kvöldveðri. Þetta var ansi langt og því miður ekki bara sléttan ein. Ég sé að það verður púl að hjóla í háskólann, þangað eru 8 kílómetrar og ekkert sérlega hagstæð brekkuhlutföll á leiðinni þangað, heldur skárri til baka. Við erum á útkíkki eftir fleiri hjólum handa öðrum fjölskyldumeðlimum. Förum líklega á morgun að skoða ömmuhjól handa Mumma.

Annars bar það hæst að ég fór í Storcenter Nord án þess að líta inn í H&M og án þess að kaupa neitt nema frelsiskort (fyrir síma sem ég finn ekki / get ekki hlaðið nema að kaupa nýtt hleðslutæki). Það er þokkalegasta verslunarmiðstöð, maður getur þó ekki lagt algjört mat á það fyrr en maður hefur skoðað H&M. Síðan vakti það mikla lukku hjá sumum í fjölskyldunni að versla í ísbílnum, við náðum að birgja okkur rækilega upp og keyptum fimm sortir af íspinnum, líklega eina 32 íspinna í allt svo það verður ekki skortur í bráð.

Í dag átti svo að skella í pönnukökur en eitt af því sem fór ekki með á milli landa var pönnukökuspaðinn. Við fórum því í búðarleiðangur en án árangurs. Þær bíða því betri tíma og stærri búðarferðar.