Hér er búin að vera brakandi blíða í svo sem eina viku enda var strandferð þrjá daga í röð. Í gær fórum við með tengdó í Randers Regnskov og báðar dæturnar voru að rifna af gleði, Strumpan jós upp úr sér upplýsingum en Skottan var helst spæld að fá ekki að klappa og sagði reglulega meiri dýr. Strumpan var líklega heilluðust af sækúnni sem við sáum en var samt ægilega sátt þegar api straukst við hana. Sunna var mjög hrifin af öpunum en horfði yfirleitt heilluð á allt sem henni var sýnt og fékk meira að segja að klappa slöngu. Strumpan fékk að smamma steikt skordýr, beit agnarlítinn bita af bjöllu og var snögg að fá sér kartöfluflögur á eftir. 🙂 Það var, eins og við er að búast, ansi heitt þarna inni en svo tók ekki betra við þegar við röltum upp í miðbæ Randers, enda var 29° hiti og sól. Það var því ansi hreint magnlítið fólk sem sneri heim.
Í dag fórum við svo klifjuð eplum (bæði úr garðinum og keyptum) í Marselisborgarskóg og þá var nú kátt á hjalla því það var slegist um að vingast við okkur. Nú vitum við hvernig tilfinning það er fyrir ríka fólkið sem á bara vini vegna þess að það á pening 🙂 Við vorum varla komin inn fyrir hlið þegar stór hópur hafði umkringt okkur og gúffaði í sig eplum. Dömurnar voru alsælar með þessa vini. Við tókum hefðbundinn hring í garðinum, reyndum að treina birgðirnar eins og við gátum og þetta entist okkur svona hálfa leið í skóginum. Þurftum að þurrka okkur vel og vendilega eftir að eplin voru búin enda útötuð í dádýraslefi. Þau voru meira að segja svo dugleg að bjarga sér að það þýddi ekki að geyma eplapokann undir sætinu hennar Sunnu, þá var óðara kominn haus að reyna að næla sér í.
Eftir þetta tókum við smá rölt í miðbænum, fórum á kaffihús og fengum okkur ís. Sunnan er alsæl í kerrunni því það er nóg af hundum að dást að. Hér heima við er mest setið úti við í skugganum, annað er ólíft og verst af öllu að vera inni. Við höfum aðeins borðað úti síðustu daga, þegar það hefur verið sem óbærilegast inni við og við hjónin sofum með sængurverið án innihalds. Í dag byrjaði dagurinn reyndar frekar dimmur þó að það væri 20° hiti og ég tók með mér flíspeysu niður í skóg en svo dró frá og sést varla ský á himni núna.