Og hófst þá fjörið

Gærdagurinn var þess eðlis að upplýsingamagnið sem flæddi yfir mann var nánast búið að brenna í sundur stöðvar í heilanum. Við fórum fyrst í heimsókn í skóla Strumpunnar og hittum kennarana, þau Lissi og Tonna. Þau virkuðu bæði vel á okkur og virtist sömuleiðis lítast vel á nýja nemandann sem þó átti afskaplega bágt með sig á hliðarlínunni og þurfti mikið að spyrja móður sína þegar hún var í miðjum saðumræðum. Niðurstaða fundarins var síðan sú að Strumpa myndi mæta í skóla á mánudagsmorgunn og eftir að kennararnir höfðu mælt frekar með því að hún færi í frístund í þessum skóla frekar en í hverfisskólanum var ákveðið að líta þangað inn líka. Frístundin er spölkorn í burtu og eini gallinn sem ég sé í fljótu bragði er sá að ég efast um að hann hvetji Strumpuna til dönskunáms, hún mun nefnilega alls ekki vilja flutning frá þessari frístund í hverfisfrístundina.

Þetta er svo allt öðruvísi heldur en það sem gengur og gerist heima. Frístundin er í stóru húsi á tveimur hæðum. Inni er smíðastofa og listasmiðja. Smíðastofan er samt lítið notuð þegar er gott veður því þá eru börnin úti … að byggja eigin kofa. Það er lagleg kofabyggð þarna fyrir utan. Útisvæðið er býsna stórt og þar er meðal annars fótboltavöllur og bandívöllur en líka bálsvæði, þar sem þau baka gjarnan eitthvað til að nasla í. Í gær var til dæmis verið að steikja pönnukökur og Strumpan fékk sjálf að prófa. Síðast en ekki síst eru auðvitað öll útihúsin fyrir dýrin. Jamm, þarna eru geitur, kindur, hænsni, haugur af kanínum og asni. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég býst við að Strumpan setjist þarna að. Þær voru báðar systur alveg heillaðar, Skottan auðvitað af dýrunum en líka af risasandkassa sem þarna var. Við heilsuðum upp á dýrin, það var hópur af krökkum sem sat með kanínur. Við klöppuðum asnanum og geitinni, asninn beit mig reyndar í hendina en það var víst af því að ég þurfti að heilsa honum vel og vandlega og mér hafði láðst það.

Strumpan fer líka strax á mánudag í frístund og bíður spennt. Tungumálaáhyggjur eru ekki til staðar nema hvað hún spurði móður sína hvernig maður bæði um að láta rétta sér kanínu 🙂 . Leigubílaskutlið hefst reyndar ekki strax, það tekur tíma (en ekki hvað) að fá það í gagnið. Ég er búin að skoða strætó og við getum tekið einn strætó niður í skóla (kl.7.20). Vikan verður því væntanlega þannig að ég fer með Strumpunni í strætó á morgnana og kem mér svo í háskólann, síðan sér Mummi væntanlega um að sækja okkur síðdegis.

Ég fór svo eftir þessa heimsókn að hitta mentorinn minn. Það er ung stúlka frá Ungverjalandi sem heitir Susanna. Við gengum saman frá miðbænum upp í háskóla og hún sýndi mér hvar ég á að mæta á mánudaginn og hvar stofurnar eru sem ég verð í, auk þess að sýna mér vinnuaðstöðu nemenda og bókasafnið. Þetta var talsvert yfirþyrmandi. Plúsinn var samt sá að ég var nokkuð stöðug í enskunni, skipti ekki nema einu sinni yfir í dönsku og sagði reyndar alltaf nei á íslensku. Ég óttast að tungumálaskiptin verði svolítið brengluð hjá mér.

Annars hafði ég fyrr um daginn komið við á alþjóðaskrifstofu háskólans og sótt stúdentaskírteini. Þar beið manns gjafapoki með alls konar nauðsynjum, korti af Árósum og bók um hvað er hægt að gera (þá sjaldan maður er ekki að læra). Frelsiskort í símann (sem virkaði reyndar ekki þegar til kom), ruslapoki til að setja yfir sig í regni sem og alls kyns praktískar upplýsingar varðandi námið, sem ég á eftir að fara í gegnum.

Það telst svo til tíðinda að það verða miklar gestakomur hér eftir viku. Anna Steina og Martin ætla að koma á laugardaginn og vera tæpa viku en svo fengum við óvænta viðbót þegar Árný boðaði komu sína sama dag. Það er víst George Michael sem heillar hana svo við förum þrjár frænkurnar á tónleika með honum á mánudaginn. Sænsku hjónin eru spennt fyrir Legolandi og Ljónagarðinum í Givskud, það verður að koma í ljós hvernig gengur að púsla því fyrst að skemmtigarðsaðdáandinn verður kominn í skóla.