Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2011

Afmælisstuð

Þá er indælisdagur að kveldi kominn í henni Danmörku. Skottan orðin tveggja ára og mun sennilega hvorki eiga rólegri afmælisdag né hlýrri í bráð. Hún var vakin með söng í morgun eins og hefð er fyrir á heimilinu og kættist mjög. Var varla komin fram úr þegar hún heimtaði graut og verandi afmælisbarn gat móðirin ekki neitað henni um það, þótt það sé bæði leiðinlegt og subbulegt (þ.e.a.s. þegar barnið borðar grautinn). Daman fékk síðan að opna einn pakka (eða reyndar tvo því eins og stundum áður þá komu pakkar í fleirtölu frá Svíþjóð). Móðirin misskildi aðeins seinni pakkann, hann innihélt dádýrskálf (altså en død én) en mamman hélt að þetta væri bara svona svakalega ljótur köttur og talaði fjálglega um kisa. Það gekk ekki vel að leiðrétta þennan misskilning, svo líklegast mun dádýrið heita Kisi.

Skottan átti góðan dag hjá Mariane, það var flaggað fyrir henni að dönskum sið, hún fékk afmælisbollur og svo var að sjálfsögðu sungið, bæði „I dag er det Sunnas fødselsdag“ og „happy birthday to you“. Hún virtist vel með á nótunum í þessu öllu og samgrísirnir hjá dagmömmunni agalega sáttir að fá bollur. Þegar hún kom heim fékk hún auk þess vöfflur með kaffinu, þær renna alltaf ljúflega niður enda vel smurðar með hvítri smurolíu 🙂 . Þegar Strumpan kom heim var lagt í að opna pakkana og þær sátu saman og opnuðu sitt á hvað. Það voru komnir pakkar frá afa og ömmu í Holtateigi og Öddu ömmu og Gylfa afa, auk pakka frá okkur. Þetta var mikið stuð og pakkarnir vöktu allir lukku hver á sinn hátt.Eftir smá skype-session drifum við okkur út að borða, eins og stundum áður á McDonalds og afmælisbarnið fékk hollan og góðan kvöldverð sem samanstóð af frönskum og shake. Enn meira skype eftir mat og svo bæl.

Annars var undirrituð í hópvinnu í morgun og kom svona líka sterk inn í tæknideildinni, kenndi hópnum sínum að nota google docs. Gamla er með þetta 😉 . Ætli kennaragenið komi ekki líka að góðum notum í næstu viku þegar við kynnum verkefnið, ég vona að minnsta kosti að ég verði ekki mjög stressuð að tala fyrir framan hópinn. Það er helst þessi enska sem stundum bögglast á leiðinni. Á mánudaginn talaði ég til dæmis um many sprogs…

Ég var svo á LC fundi í gær, geri reyndar fátt annað, því einn fundur er varla liðinn þegar næsti brestur  á. Fékk einmitt það hlutverk að tala um eitthvað „aktuelt“. Það þvældist aðeins fyrir mér af því að ég hef svo lítinn tíma til að lesa blöð og horfa á fréttir. Datt loks inn á að tala aðeins um Christianiu, sem varð 40 ára á mánudaginn. Þetta var bráðhollt, ég ákvað að tala blaðlaust en setti niður nokkra minnispunkta heima til að hugsa aðeins um hvað ég gæti sagt. Þetta verður minn aðal dönsku-vettvangur held ég, þarna þarf ég bæði að tala og hlusta og finn talsverðan mun á mér eftir þessa þrjá fundi. Ég hafði líka íhugað að tala um sjónvarpsseríur, af því að DR er 60 ára og er að sýna gamalt efni. Mér datt í hug að það gæti verið gaman að tala um Matador og það hefði verið skondið því það kom svo í ljós að ein í hópnum er barnabarn Ghitu Nørby (sem lék einmitt Ingeborg svo snilldarvel).

Á morgun er von á Arndísi vinkonu Strumpunnar í heimsókn og þetta er á við litlu jólin, svo mikil er tilhlökkunin. Það á að vera sumarblíða fram á sunnudag, ég sem hafði skipað eiginmanninum að ganga frá garðstólunum því það yrðu ekki not fyrir þá meira þetta haustið en í dag fór hitinn yfir 20°.

Lati ritarinn

Þá er enn liðinn langur tími frá því síðast og skrifast að þessu sinni á leti og ómennsku ritarans auk þess að ekkert sérstakt er að frétta. Síðasta vika var frekar róleg að undanskildu afmælinu. Við áttum góða ferð á Jensens bøfhus, dömurnar fengu aldeilis eitthvað fyrir sinn snúð, bæði blöðrur og dýrindis ís í eftirrétt. Ég tók þátt í sms „keppni“ og vann appelsínusorbet í eftirrétt 🙂 . Staðurinn verður pottþétt heimsóttur oftar, það er voða þægilegt að fara í fjölskyldudinner þangað.

Enn sem fyrr var mikið að gera í skólanum, ég les yfirleitt bæði seinni partinn, áður en dömurnar skila sér heim, og aftur á kvöldin. Skil afskaplega mismikið og þar sem kennararnir virðast hafa ofurtrú á hópvinnu þá sit ég oftar en ekki og held mig til hlés. Náði þó þeim merka áfanga á fimmtudaginn að hafa skilið efnið ágætlega og lagði orð í belg í hópumræðum. Nú bætast svo nemendakynningar ofan á annað og í næstu viku á ég að fjalla um stækkun ESB með hópnum mínum. Lagði ekki til að Ísland yrði tekið sem dæmi þó að það sé auðvitað augljós kostur. Við þurfum svo að skrá okkur í próf í þessari viku og þar sem við höfum val um að slá saman tveimur áföngum af þremur í stóra ritgerð, eða fara í skriflegt próf + ritgerð þá þarf maður aðeins að hugsa sig um.

Dömurnar voru sáttar eftir vikuna, Skottunni gekk að mestu leyti vel hjá dagmömmunni en skældi samt smá þegar hún var skilin eftir. Var samt alltaf sátt þegar hún var sátt og lá ekkert endilega á að komast heim. Svo hefst tíminn þar sem hún er spræk og hoppar og hleypur um allt en þá klárast líka orkan. Hér er algjört „ulvetid“ frá svona sex og þangað til bælingu er lokið. Strumpan tekur þátt í því af fullum krafti, er eirðarlaus og sísvöng. Þá er gaman að vera foreldri.

Við gerðum lítið um helgina þrátt fyrir indælisveður. Foreldrarnir ekki með orku í hjóltúr eftir að hjóla í skólann. Fórum samt í Marselisborg skov á sunnudaginn, þurftum að keyra alls konar krókaleiðir út af einhverju hlaupi sem blokkaði stórt svæði á leiðinni og sáum skemmtilegar götur í þessari ævintýraför (og keyrðum fram hjá Tivoli Friheden sem kætti Strumpuna mjög nema hvað það var auðvitað sorglegt að vera ekki að fara þangað). Þegar til kom voru dádýrin alls ekkert svöng og við sem höfðum farið í sérlega eplatínslu til að bæta fyrir uppskerubrest hjá okkur.

Í gær fór Skottan (Strumpunni til mikillar öfundar) í hoppsal í íþróttahúsi hér í nágrenninu. Dagmamman hafði á orði að hún hefði alveg haft gaman af því að hoppa en aðal málið hefði samt verið að leika sér með bolta. Öll vötn falla til Dýrafjarðar eða hvað? Það virðist óumflýjanlegt að við endum sem boltaforeldrar.

Þögnin langa

Ekki það að ég hafi ætlað að láta líða svona langt á milli blogga, þetta er bara merki um hvað tíminn líður hratt. Mér finnst ótrúlegt að það séu liðnir tveir mánuðir frá því að við komum. Ef við verðum bara árið er liðinn 1/6 af tímanum!

Svo farið sé yfir það helsta frá því síðast þá vorum við býsna virk um síðustu (eða reyndar þarsíðustu) helgi. Það var yndislegt veður, svo á laugardeginum ákváðum við að fara í lautartúr. Hjóluðum í Riis Skov, með viðkomu í bakaríinu og reyndar smá lengingu á túrnum til að kortleggja leiðina mína í skólann aðeins betur. Þetta er geysiskemmtileg leið, bæði eru falleg hús við götuna sem við hjólum en einnig liggur hluti leiðarinnar meðfram sjónum. Skógarferðin sjálf var hálf mislukkuð, við lögðum reiðskjótunum okkar og gengum inn í skóg og ætluðum að finna huggulegt rjóður en það lét alveg á sér standa. Við enduðum á að sitja á bekk og snæða nestið og fylgjast með mannlífinu. Þaðan gengum við niður á ströndina sem er þarna við. Þar er á sumrin skipulögð gæsla og væntanlega líf og fjör en frekar fámennt þegar við fórum, Strumpan þó ekki nógu ánægð með að fá ekki að sulla aðeins í sjónum og reyndar gaf Skottan það sama í skyn. Við hjóluðum síðan heim með viðkomu í búðinni. Þetta voru einir 12 km og ég var mest hissa hvað Strumpan bar sig vel.

Á sunnudeginum var ákveðið að fara í Legoland, í boði Önnu og Martins, því við áttum frímiða sem við erfðum eftir þeirra ferð þangað. Báðum dömunum var sinnt ágætlega, Skottan fékk að fara í mörg tæki og var himinsæl og þegar var búið að sinna henni var komið að Strumpunni og hún fór líka í allmörg tæki. Mér finnst þó að tækin séu frekar lítið spennandi, en þetta dugar auðvitað vel fyrir minnsta aldurshópinn. Það var ágætt veður á okkur þarna og rigndi til að mynda ekkert.

Síðan var komið að skólaviku/dagmömmufrísviku. Ég gerði því ekkert nema að fara í skólann og rembast við að lesa þegar Skottan svaf á daginn og á kvöldin. Sem betur fer var frí í einum áfanganum sem hentaði afskaplega vel á þessum tíma. Ég var aðeins meira með á nótunum í fyrri tíma vikunnar en ég hafði verið vikuna áður en seinni tíma vikunnar upplifði ég loksins að skilja allan tímann. Það var að vísu þungur tími að því leyti að það var fyrirlestur allan tímann (í þrjá tíma með einni hálftíma pásu). Efnið er samt spennandi, þá vorum við að tala um þjóðir, mest út frá mannfræðikenningum. Kannski ég hefði átt að fara í mannfræði? 😉 Mér varð oft hugsað til Domenicu i 44 Scotland Street, sem fór til að rannsaka mannætur – en lærdómur dagsins var samt sá að það væri ekki lengur aðalatriðið að gera rannsóknir með því að dvelja meðal þeirra sem maður rannsakar. Sömuleiðis minnti þetta mig líka á þær „Xenophobics“ bækur sem ég hef lesið sem mér finnst mikil skemmtun.

Það taldist svo til tíðinda að ég hjólaði í skólann á fimmtudeginum. Leiðin er þægileg framan af, en endar í óskaplegri brekku upp að háskólanum. Ég var tæplega 40 mínútur að hjóla í skólann og gerði þau mistök að vera ekki með heilt skiptidress og sat því í svitastorknum bol og vorkenndi þeim sem sátu næst mér. Næst verður heilgalli til skiptanna með í töskunni. Ég var töluvert fljótari að hjóla heim og sá túr var bara notalegur. Þó var það athyglisvert að það var mótvindur báðar leiðir og sama í hvaða átt ég hjólaði! Eflaust vegna þess að ég hjólaði svo hratt.

Á föstudaginn leit dagmamma Skottunnar inn, svona til að rifja aðeins upp fyrir henni. Strumpan hafði fengið leyfi til að fara heim með nýju bestu vinkonunni, svo hún missti af þessu. Nýja vinkonan býr í hinum enda bæjarins og við vorum ríflega 20 mínútur að keyra þangað þegar við sóttum hana um kvöldið. Hún hafði reyndar sótt það að fá að gista en ég ákvað að ég vildi að minnsta kosti sjá einu sinni framan í foreldrana áður en hún fengi leyfi til þess.

Helgin fór annars fyrir lítið. Skottan orðin verri af kvefi, að öllum líkindum líka með eyrnabólgu, næturnar voru ófriðlegar. Við héldum okkur því heima við. Hún er líka heima í dag (týpískt að eyða dagmömmufrísvikunni í að vera hraust og veikjast svo um leið og hún á að mæta aftur).  Litla daman er orðin sjónvarpssjúk í veikindunum, allt er látið eftir henni og nú horfir hún á sjónvarp sem aldrei fyrr og nær líklegast að vinna upp tapaðan tíma síðustu tveggja ára. Það eru „Abbeogylle“ sem eru svona vinsælir og kaupa foreldrunum smá frið.

Afmælisdrengurinn er í skólanum, loksins byrjaður að læra dönsku. Strumpan fór með pönnukökur handa bekknum í tilefni dagsins og í kvöld er ferðinni heitið á Jensens bøfhus til að fagna afmælinu en afmælisbarnið ætti að vera laust á skype í allt kvöld.

Aðlögun mæðgna

Þá er Skottan komin langleiðina með fyrstu vikuna hjá dagmömmu og ég búin með tímana mína þessa vikuna í háskólanum. Við erum báðar í þokkalegu standi eftir þetta allt. Kannski fyrst frá því að segja að það gengur eins og í sögu hjá dagmömmu. Á mánudaginn vorum við með henni í næstum þrjá tíma, fórum á æðislegan leikvöll sem er nánast niðri á strönd og er mjög náttúrulegur og skemmtilegur. Við héldum hæfilegri fjarlægð allan tímann og það var mest lítið sem hún þurfti að leita til okkar. Hún fékk síðan að borða og fór heim að sofa. Á þriðjudag fór pabbinn með hana og skildi fljótt við hana og hún kippti sér ekkert upp við það og var alein fram að hádegi. Gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið eins, hún er bara hæstánægð að komast á morgnana og er alveg róleg þegar hún er sótt, liggur ekkert á að komast. Í dag fór hópurinn í leikfimissal og þar lék hún sér með bolta sæl og glöð. Á morgun á hún að prófa að sofa og við búumst ekki við öðru en að það gangi áfallalaust.

Hin aðlögunin hefur líka gengið prýðilega en ekki alveg eins áfallalaust. Á mánudaginn fór ég og keypti bækur, enda var heimavinna að lesa einar 100 síður fyrir tímann á þriðjudag. Ég þrælaðist í gegnum efnið án þess að fletta upp í orðabók og fannst þetta nokkuð strembið. Í tímanum á þriðjudaginn var mjög gaman og mér leist vel á kennarann og efnið en boy hvað hinir virtust meira með á nótunum og betri en ég í ensku. Ég hefði eflaust farið að gráta ef ég hefði þó ekki verið búin að lesa heima svo ég vissi aðeins hvað fram fór. Það beið svo heimavinna fyrir miðvikudagstímann og ég byrjaði á því að lesa í skólanum, enn án orðabókar og það var ansi erfitt, ég var að lesa um ESB og veit náttúrulega ekki rass. Ákvað að lesa heima um kvöldið og nota orðabók til aðstoðar. Ég gerði það svo og var ansi sátt við hvað ég skildi bara þokkalega. Þetta var þó til þess eins að komast að því að sá kafli hafði ekki verið fyrir tímann svo ég var ekki alveg eins með allt á hreinu eins og ég ætlaði. Ferlega súrt. Kúrsinn lofar samt mjög góðu, ekki síst vegna þess að ég hafði minnstar væntingar um hann fyrirfram.

Fyrir tímann í dag var svo blessunarlega (jamm, komin í stúdentagírinn) engin heimavinna svo ég tók því nokkuð rólega í gær og horfði meira að segja á sjónvarpið. Hann var alveg dæmigerður fyrsti tími, farið yfir áfangann, skipulag og námsmat, mjög ítarlega meira að segja og ég þurfti alveg að hafa mig alla við að fylgjast með. Ég fór síðan með samnemendum mínum á stúdentabarinn svona til að vera ekki alveg antisósjal, það er betri tími að fá sér bjór seinni partinn en á kvöldin 🙂 .

Í heildina líst mér vel á mig. Ég held að það sem sagt var við okkur í síðustu viku um að þetta væri erfitt en gaman muni alveg eiga vel við. Kennararnir þrír lofa mjög góðu hver á sinn hátt. Það er gaman að rýna í þá með eigin kennaragleraugum og spá í hvernig þeir standa sig. Og nemendurnir hafa enn sem komið er ekki svekkt mig með því að vera í tölvunni að gera annað.

Strumpan kom svo alsæl heim í dag. Það hafði nefnilega bæst nýr nemandi í bekkinn og að þessu sinni datt mín í lukkupottinn, það var nefnilega Íslendingur 🙂 . Með öðrum orðum þá lét daman dæluna ganga svo öðrum fannst nóg um. Ég er ósköp fegin þessu af því að mér hefur fundist hún vera frekar einangruð og ekki mikið eiga samskipti við hina. Hún er mest út af fyrir sig í frístund og hefur ekki tengst neinum í bekknum. Til að bæta daginn enn frekar þá var boðið upp á popp í frístundinni og fröken vissi varla á hvaða tíðindum hún átti að byrja þegar hún kom, það var svo margt að segja eftir daginn.

Í lokin smá veðurfréttir. Það hefur verið ansi blautt hérna nokkuð lengi og enn hefur ekki liðið sá dagur að það væri ekki rigning einmitt þegar ég er að koma úr skólanum. Hjólið stendur því frekar lítið notað, ég hef hreinlega ekki nennt að hjóla í rigningunni. Það hefur svo verið um 15° hiti, en stefnir í gott veður um helgina. Við höfum hjólað mest í búðina samt, bíllinn fékk að standa óhreyfður í heila viku sem hefði aldrei gerst heima. Minn elskulegi eiginmaður rifjaði upp gamla hjólaviðgerðartakta á sunnudaginn og tók bæði hjólið mitt og Strumpunnar í gegn, gírarnir voru vanstilltir hjá mér og svo lak úr dekkjum hjá okkur báðum og þetta lagaði hann eins og hann hefði ekki gert annað. Hann er alltaf að sýna á sér nýjar hliðar þessi elska.

Uppsóp frá síðustu viku

Það leið óvart langur tími á milli blogga hjá mér núna og skrifast það einkum á gestakomu um síðustu helgi. Meira um það síðar. Ef við höldum áfram þaðan sem frá var horfið þá fórum við í heimsókn til dagmömmunnar á miðvikudaginn í síðustu viku. Hún reyndist sem betur fer vera geðug og ekki var annað séð en að Skottunni litist bærilega á sig líka. Það var reyndar rólegt því tvö börn voru fjarverandi og eitt svaf megnið af tímanum. Þau verða sem sagt bara fjögur og eru á nokkuð svipuðum aldri.

Marianne sló í gegn á fyrstu mínútunum hjá Skottu af því að hún átti Bamse og Kylling, hún lék sér með þá og annað fínt dót til að byrja með. Svo fengum við hressingu og þá var matargatið líka sátt því í tilefni heimsóknarinnar var boðið upp á kex og saftevand. Síðan vaknaði Lærke og leist framan af illa á aðkomumennina en Skottan var sátt við að sjá loks annað kríli. Við skoðuðum líka garðinn og þar var þetta fína hús og róla sem hægt er að liggja í auk alls konar bíla og hjóla og alt muligt. Það var því þrautin þyngri að koma dömunni heim aftur. Það er annars stutt að fara, hún býr í um það bil fimm mínútna göngufjarlægð ef maður tekur stystu leið.

Dagmömmusystemið er svolítið öðru vísi en það sem maður á að venjast og að mörgu leyti afskaplega danskt. Þannig þurfti ég að láta yfirmann dagvistunar vita að ég vildi plássið og við hittumst síðan þrjár til að fara yfir þetta praktíska. Lykilorðið virðist vera umræða. Þannig á maður ekki að hika við að láta vita ef eitthvað er öðru vísi en maður er vanur eða ef maður er ósáttur. Síðan virkar kerfið sem svo að ef dagmamman er veik þá er alltaf hægt að koma barninu að hjá annarri dagmömmu, svo hér eiga veikindadagar ekki að bitna á foreldrum og ég efast um að til sé eitthvað sem heitir starfsdagur. Dagmömmurnar eru alltaf í litlum dagmömmuhóp sem hittist einu sinni til tvisvar í viku með krílahópinn svo ef maður þarf afleysingu þá á það að vera einhver sem krílið þekkir.

Skottan byrjar svo á mánudag, hefði í raun átt að byrja í gær en dagmamman var í fríi í dag svo okkur fannst það ástæðulaust. Sömuleiðis er dagmamman í fríi eftir tvær vikur og ef Skottan hefði verið komin vel af stað þá hefði hún þá farið til afleysingarmömmunnar en við ákváðum að redda þessu frekar sjálf af því að hún verður svo nýbyrjuð. Við ræðum þetta reglulega og Skottan tekur vel í að hún sé að fara til dagmömmu enda þaulvön!

Skólastelpurnar tvær standa sig enn með prýði. Sú eldri fór meira að segja að blanda geði á fimmtudag þegar hún loks var komin í hóp með verðandi samnemendum sínum en skrópaði þó í strandpartý á föstudag. Í gær hittist svo allur hópurinn loks. Þetta eru ríflega þrjátíu manns, einhverjir eru reyndar erasmus nemar og verða bara hálft ár. Ég er auðvitað tvöfalt eldri en flestir en kættist þegar ég heyrði að það var önnur mamma í hópnum, svona þarf nú lítið til. Það er strax búið að setja fyrir lestur og við erum ekki einu sinni búin að mæta í alvöru tíma, bara enn eina kynninguna. Svo nú er bara að skella sér í djúpu laugina og athuga hvort aðferðin að lesa jafn óðum er í alvöru til og hvort hún virki. En fyrst er reyndar að kaupa bækurnar, ég á það reyndar eftir 😉 .

Sú unga ber sig líka ágætlega. Hún er loks farin að fara með leigubíl á morgnana og þó það muni ekki öllu í fótaferðatíma þá er ósköp gott að vera laus við strætó. Hún fór með bekknum á listasafnið (og skoðaði Regnboga Ólafs Elíassonar) og í tónlistarhúsið í fyrradag og það var mikið stuð. Og frístund er enn mjög skemmtileg þótt hún hafi kvartað yfir að það væri næstum ekkert hægt að gera skemmtilegt fyrir utan (og svo kom langur listi)… og endaði á að segja að það væri bannað að leika sér í símanum (sem hún fékk loks nú í síðustu viku eftir átta ára bið).

Hún gleymdist reyndar í skólanum á föstudaginn, þá kom kennari til að fylgja þeim í frístundina og Strumpan hafði af einhverjum ástæðum brugðið sér frá og krakkarnir voru vissir um að hún hefði ekki verið í skólanum. Hún reddaði sér bara sjálf og fór á skrifstofuna og lét vita og það kom svo starfsmaður og fylgdi henni. Hún var fullviss um að hún hefði heillað hann upp úr skónum enda sýndi hún alla sína helstu hæfileika, meðal annars að prumpa með handarkrikanum. Ég efast ekki um að hann hafi verið uppnuminn.

Á laugardag fengum við svo gestina okkar, fyrst Árnýju seinni part og Önnu og Martin um kvöld. Við vorum kaffærð í gjöfum, ekki nóg með að Árný kæmi með umbeðið hangikjöt (ekki er ráð nema í tíma sé tekið) heldur var hún einnig með nammi og gjafir handa stelpunum og sömuleiðis Anna og Martin komu færandi hendi, meðal annars með sænskt viský sem reyndist svona ljómandi gott. Við mæðgur fórum með Önnu og Martin í Legoland (langþráða ferð) á sunnudaginn, þeirri eldri fannst víst ekki farið nógu mikið og oft í tæki en miðarnir okkar gilda síðar svo það verður líklega farið aftur. Á mánudaginn fórum við fyrst í smá búðarleiðangur í miðbæinn og svo sóttum við Strumpuna snemma í frístund og fórum með gestina í Marselisborgarskóg með rummungsskammt af eplum.

Á mánudagskvöld var síðan komið að hápunkti sumarsins, tónleikunum með George Michael. Við frænkur lögðum af stað til Herning um sex og vorum mættar fyrir utan Jyske Bank Boksen um hálf átta í grenjandi rigningu og náðum að blotna vel á leiðinni frá bílastæði inn í hús. Árný sat nokkrum bekkjum aftar en við og lenti í ólátum, þar sem einhverjum var vísað út en við systur sátum í rólegri félagsskap. Félaginn byrjaði svo að syngja um hálf níu og stóðst allar væntingar og þá er ekki lítið sagt. Ég var aðeins búin að hita upp á youtube en það er ekkert sem jafnast á við að hafa hann svona í þrívídd fyrir framan sig. Það var rífandi stemming í salnum og var til dæmis risið úr sætum tvisvar og klappað. Eftir hlé náði Árný að setjast á næsta bekk fyrir aftan okkur svo við höfðum hana skammt undan. Félaginn var svo klappaður upp í tvígang með þvílíkum látum. Við keyrðum alsælar heim, það var auðvitað örtröð að komast burt og minnti helst á Metallicu hér um árið en allt hófst að lokum, það var þó látlaus rigning nánast alla leið heim svo við vorum komnar í hús um eitt.

Árný fór síðan heim á miðvikudag, var keyrð í lest um morguninn og við hin fórum á rölt í bæinn og fengum okkur hádegisverð á Rådhuskafeen í tilefni dagsins. Ég yfirgaf svo gestina um kvöldið til að fara á LC fund með nýja danska klúbbnum mínum. Það var voða gaman en erfitt fyrir eyrun að hlusta á flóðgátt af dönsku svo þetta verður bara hollt og gott fyrir mig. Við byrjuðum kvöldið á súmóglímu, fórum í fitubollubúninga og glímdum tvær. Mér var fleygt strax í gólfið en komst svo að því að andstæðingur minn (sem vann keppnina) hafði æft glímu. Fundurinn var að mörgu leyti keimlíkur þeim heima, nema hvað það er farið yfir fréttir frá öðrum klúbbum (ekki alveg öllum samt, þeir eru hátt í 200).

Í gærmorgun yfirgáfu Anna og Martin okkur svo það er hálf tómlegt í kotinu. Engin plön fyrir helgina (nema að skrópa í enn einu partýinu í skólanum). Ég byrja í tímum á þriðjudaginn og þarf að fara að huga að ferðamáta, það er varla að það sé fljótlegra að fara í strætó en að hjóla þegar allt er tekið með svo kannski er það bara málið.

Læt gott heita að sinni.