Þá er enn liðinn langur tími frá því síðast og skrifast að þessu sinni á leti og ómennsku ritarans auk þess að ekkert sérstakt er að frétta. Síðasta vika var frekar róleg að undanskildu afmælinu. Við áttum góða ferð á Jensens bøfhus, dömurnar fengu aldeilis eitthvað fyrir sinn snúð, bæði blöðrur og dýrindis ís í eftirrétt. Ég tók þátt í sms „keppni“ og vann appelsínusorbet í eftirrétt 🙂 . Staðurinn verður pottþétt heimsóttur oftar, það er voða þægilegt að fara í fjölskyldudinner þangað.
Enn sem fyrr var mikið að gera í skólanum, ég les yfirleitt bæði seinni partinn, áður en dömurnar skila sér heim, og aftur á kvöldin. Skil afskaplega mismikið og þar sem kennararnir virðast hafa ofurtrú á hópvinnu þá sit ég oftar en ekki og held mig til hlés. Náði þó þeim merka áfanga á fimmtudaginn að hafa skilið efnið ágætlega og lagði orð í belg í hópumræðum. Nú bætast svo nemendakynningar ofan á annað og í næstu viku á ég að fjalla um stækkun ESB með hópnum mínum. Lagði ekki til að Ísland yrði tekið sem dæmi þó að það sé auðvitað augljós kostur. Við þurfum svo að skrá okkur í próf í þessari viku og þar sem við höfum val um að slá saman tveimur áföngum af þremur í stóra ritgerð, eða fara í skriflegt próf + ritgerð þá þarf maður aðeins að hugsa sig um.
Dömurnar voru sáttar eftir vikuna, Skottunni gekk að mestu leyti vel hjá dagmömmunni en skældi samt smá þegar hún var skilin eftir. Var samt alltaf sátt þegar hún var sátt og lá ekkert endilega á að komast heim. Svo hefst tíminn þar sem hún er spræk og hoppar og hleypur um allt en þá klárast líka orkan. Hér er algjört „ulvetid“ frá svona sex og þangað til bælingu er lokið. Strumpan tekur þátt í því af fullum krafti, er eirðarlaus og sísvöng. Þá er gaman að vera foreldri.
Við gerðum lítið um helgina þrátt fyrir indælisveður. Foreldrarnir ekki með orku í hjóltúr eftir að hjóla í skólann. Fórum samt í Marselisborg skov á sunnudaginn, þurftum að keyra alls konar krókaleiðir út af einhverju hlaupi sem blokkaði stórt svæði á leiðinni og sáum skemmtilegar götur í þessari ævintýraför (og keyrðum fram hjá Tivoli Friheden sem kætti Strumpuna mjög nema hvað það var auðvitað sorglegt að vera ekki að fara þangað). Þegar til kom voru dádýrin alls ekkert svöng og við sem höfðum farið í sérlega eplatínslu til að bæta fyrir uppskerubrest hjá okkur.
Í gær fór Skottan (Strumpunni til mikillar öfundar) í hoppsal í íþróttahúsi hér í nágrenninu. Dagmamman hafði á orði að hún hefði alveg haft gaman af því að hoppa en aðal málið hefði samt verið að leika sér með bolta. Öll vötn falla til Dýrafjarðar eða hvað? Það virðist óumflýjanlegt að við endum sem boltaforeldrar.