Hendi inn til gamans bréfi sem ég sendi á samstarfsfólk mitt …
Sæl öll
Ákvað að senda á ykkur línu til að láta vita hvernig mér reiðir af á nýjum slóðum. Einhverjir halda jafnvel að ég muni ekki snúa aftur þegar ég loks er komin til fyrirheitna landsins. Það er ekki fjarri lagi. Ég þykist vera orðin nokkuð dönsk, hálfdönsk að minnsta kosti og gott ef ég nálgast það ekki að verða nýdönsk. Ég hef verið til fyrirmyndar sem innflytjandi, keypti strax á fyrstu dögunum hjól handa öllum hjólfærum í fjölskyldunni og hjólakerru handa litla prikinu. Þess má geta að við höfum ekki hjólað okkur til óbóta heima, sem dæmi held ég að það hafi verið komin ein þrjú ár síðan ég hjólaði síðast þar. Ég verð þó að viðurkenna að við erum enn á amatöra-stiginu. Gamlar konur taka fram úr okkur þegar við erum á fjölskyldurúntinum og þó að ég haldi í við þær þegar ég hjóla ein þá er það ekki beinlínis daglegur viðburður að stíga á hjólið.
Það má reyndar segja að ég hjóli alltaf í skólann þegar viðrar til þess og ég þarf ekki að mæta ókristilega snemma, í allt eru það líklega ein fjögur skipti. Ég vek reyndar aðdáun samnemenda minna þegar ég hjóla, því þetta eru þó um 8 kílómetrar hvor leið og síðasti spölurinn upp að háskóla er ansi hreint brattur, það er ekki laust við að mér finnist ég vera í Ölpunum svo ég skammast mín lítið að þurfa að hoppa af og leiða hjólið smá spöl. Eins og gefur að skilja fylgir síðan svitakóf mikið, ég þarf bæði að vera tímalega til að ná að klára að svitna og svo þarf ég heilgalla til að skipta um föt. Af þessu má sjá að hjólreiðunum fylgir talsvert umstang.
Þá sjaldan ég hjóla ekki í skólann tek ég strætó. Bý svo vel að geta valið um 6 leiðir sem eru í 5 mínútna radíus og allar fara þær bæði að háskólanum og í miðbæinn, þægilegra getur það ekki verið. Ég gerði einu sinni þau mistök að keyra, af því að ég þurfti að koma eldri dótturinni til tannlæknis og það olli bara kvíða og stressi því það eru engin stæði að ráði við skólann, ég fylgdi reyndar bara ráði heimamanna og lagði ólöglega. Ekki langar mig til að endurtaka þetta.
Af skólanum er flest ágætt að frétta. Ég hef tekið nýja stefnu sem námsmaður og mæti núna undirbúin í tíma. Það virðist skila nokkrum árangri, mér hefur gengið þokkalega að fylgjast með og vera með á nótunum (svona eftir að ég náði sæmilegum áttum í enskunni). Námið er mjög áhugavert, ég sé ekki betur en ég verði vel í stakk búin til að kenna á nýrri tungumála- og félagsgreinalínu. Þetta er nokkurs konar bræðingur af mannfræði, stjórnmálafræði og þjóðfræði, með smá hliðarhoppum í heimspeki- og félagsfræðikenningar. Það sem kemur mér helst á óvart er að ég hef gaman af áfanganum sem fjallar um ESB, fram að þessu hefur það ekki verið sérstakt áhugamál mitt.
Stærsti gallinn við námið er sá að ég hef verið svolítið týnd í öllu talinu um hinar og þessar kenningarnar og hvernig maður beitir þeim, en mér finnst eins og það sé ögn að birta til, geng ekki svo langt að segja að ég hafi séð ljósið, það má kannski frekar segja að ég sjái bregða fyrir kertaloga. Rétta áttin, hverju sem öðru líður. Kennararnir mínir eru miklir áhugamenn um hópvinnu og það líður nánast ekki sá tími að við séum ekki sett í hópverkefni. Þetta á að hvetja okkur til að mæta vel undirbúin svo við bregðumst ekki samnemendum okkar og kannski svo þetta sé ekki bara eintal kennarans. Mér finnst þetta vera nokkuð mikið af hinu góða, eftir sem áður er það mest sama fólkið sem talar í hópunum. Við höfum að auki þurft að vinna hópverkefni sem við kynnum í tímum og það er ekki laust við að hér komi bakgrunnurinn sér vel, mér finnst lítið mál að tala fyrir framan bekkinn en veit að margir kvíða fyrir þegar það bíður þeirra. Nú styttist í prófin, ég tek eitt skriflegt próf og skila tveimur ritgerðum, því miður í janúar svo ég sé ekki fram á að desember verði neinn alsælumánuður í dúlleríi fyrir jólin.
En víkjum aftur að aðlöguninni. Ég fór í menningarferð til Þýskalands um síðustu helgi. Keyrði nokkra kílómetra yfir landamærin (eldri daman sat aftur í og beið eftir að það gerðist eitthvað), fann risastóra verslun og keypti bjór, vín og gos eins og enginn væri morgundagurinn. Eða kannski eins og það væru margir morgundagar, ég hef aldrei átt svona mikið af áfengi áður svo það veitir ekkert af lengra lífi til að drekka þessi ósköp. Þrátt fyrir þessi miklu innkaup eigum við enn eftir svolítið í land með að verða aldönsk, okkar stafli var eins við værum að kaupa til vikunnar, miðað við það sem á gekk í kringum okkur. Enda dugði þetta skammt, í dag keyptum við meiri bjór (þó ekki sjáist mikið á birgðunum) og eigum núna þrjár tegundir af jólabjór og förum þá að verða nokkuð vel sett.
Talandi um að kaupa fyrir vikuna, þá höfum við líka reynt að læra það af innfæddum að fara ekki í búð á hverjum degi. Þetta var búið að vera svolítið kvíðaefni fyrir flutninga, hvernig á maður að fara að í landi þar sem búðir eru lokaðar á sunnudögum? Áfallið reyndist nokkuð minna en við höfðum séð fyrir okkur. Bæði erum við svo vel í sveit sett að í 200 metra fjarlægð er prýðisbúð sem er opin alla daga, langt fram á kvöld. Hins vegar virðist nýja trendið hér vera að hafa opið fyrsta og síðasta sunnudag í mánuði svo þetta er ekki eins alvarlegt og við bjuggumst við. Þrátt fyrir þetta góða aðgengi höfum við tekið okkur verulega á og ákveðum helst hvað á að vera í matinn næstu tvo daga, mikil framför frá því að ákveða klukkan sex hvað á að vera í kvöldmatinn.
Í dönskum anda erum við líka dugleg að elta tilboð. Morgunjógúrtin mín er til dæmis alltaf á tilboði í einhverri búðinni, svo hana kaupi ég sjaldnast á fullu verði. Verra er með bensínið. Verðið á því sveiflast mikið og er allt frá því að vera 10.5 – 12.5 krónur líterinn. Það segir sig sjálft að maður kaupir helst ekki bensín ef verðið er í efri mörkunum og er alltaf með augum á verðskiltunum þegar maður keyrir um. Ég hef komist að því að bensínið er að jafnaði ódýrast á morgnana og sendi eiginmanninum sms og rek hann í bensínkaup ef ég sé hagstætt verð. Samt nagar kvíðinn og maður lifir í stöðugum ótta að kannski verði bensínið ódýrara á morgun. Það er vandlifað.
Af almennri aðlögun fjölskyldunnar er sömuleiðis fátt nema gott eitt að segja. Stóra daman er í móttökubekk, þarf reyndar að fara um 10 kílómetra í skólann og er keyrð til og frá í leigubíl. Bílstjórarnir eru ekki öfundsverðir af hlutskiptinu, því ég efast um að hún leggi munninn aftur á leiðinni. Hún veit orðið margt um þeirra einkahagi og nýjasta sagan var að hún lagði línurnar um hvað 12 bræður hennar ættu að heita (sem hana dreymir um, ekki að þeir séu væntanlegir). Eins og gefur að skilja gengur henni ágætlega með dönskuna og tekur óhikað þátt í samræðum. Hana skortir að minnsta kosti ekki sjálfsöryggið.
Sú stutta er hjá dagmömmu hér skammt frá. Við göngum þangað og ef stuttu fæturnir fá að bera sig sjálfir getur fimm mínútna túr auðveldlega orðið 40 mínútna túr því það er að mörgu að hyggja á leiðinni. Við göngum yfir sjálfa Eg-ána, sem er endalaust uppspretta gleði. Ég hætti ekki að furða mig á hægu rennsli hennar. Ef maður mælir óvísindalega hvað laufblað fer hratt yfir þá eru það svona 3 sentimetrar á sekúndu. Stundum finnst mér jafnvel að áin renni upp í mót. Þetta er fallegt umhverfi og gaman að ganga þessa leið. Litlu dömunni gengur sömuleiðis vel í dönskunni. Hún kann að segja leverpostej (sem hlýtur að teljast grundvallaratriði) og min duddi (= min sut) og það er voða krúttlegt þegar koma dönsk orð úr þessu litla munni.
Eiginmaðurinn er líka í dönskunámi og líkar ágætlega. Honum finnst þó full mikil áhersla á málfræði, ekki síst í ljósi þess að þetta er ekki flókin málfræði og svo leiðist honum þegar kennararnir sýna bíómyndir og velja myndir uppfullar af drama. Þannig skrópaði hann um daginn af því að hann nennti ekki að horfa á Pelle Erobreren og eiginkonan er afar hneyksluð á því að láta svona meistarastykki fram hjá sér fara.
Jæja, látum gott heita í bili. Ég sakna MA óskaplega og þrátt fyrir varnaðarorð Jónasar skoða ég tölvupóstinn minn oft í viku til að fylgjast með hvað er á seyði. Bið að heilsa.
Hafdís
PS Til Jónasar ef þú hefur enst svona lengi – fórum loks í pílagrímsferðina miklu að skoða gömlu heimkynni þín. Þorðum ekki að gera langt stopp til að góna á húsið af því að það voru íbúar fyrir utan en þetta leit hlýlega út og gatan hin notalegasta. Hjóluðum til baka meðfram Egánni, höfðum ekki tekið stíginn frá höfninni áður og hann var alveg frábær. Skemmtileg blanda af ríkisbubbahöllum og fátækrahreysum þarna við Strandhusvej. Og ég lýsi yfir miklum stuðningi við vorferðina til Danmerkur 🙂