Félagslíf af áður óþekktri stærðargráðu

Það hefur eitt og annað á dagana drifið síðan síðast og ekki seinna vænna en að henda inn lítilli skýrslu. Frásögnin hefst fyrir hálfum mánuði þegar Óli Pálmi og Ellen, sem eru fyrrum vinnufélagar Mumma, litu inn. Það var mikið fjör og gaman, aðeins hægt að grípa í Þýskalandsvarninginn góða. Strumpan stóð sig eins og herforingi að tala dönsku við Ellen. Næsta dag kom Óli aftur, það verður að nýta vel þegar eru ferðalangar frá Íslandi hér í nágrenninu.

Á sunnudeginum fórum við í heimsókn til Viðars frænda sem býr í Beder, hinu megin í Árósum. Hann hafði hringt nokkrum dögum áður og ég bauð okkur að heimsækja hann af því að mig langaði að rúnta þangað. Beder er snotur smábær þar sem Gunnlaugur Starri hafði annan fótinn fyrir nokkrum árum, Erna hafði reyndar fast að því báða fætur þar, svona á milli þess sem hún rúntaði til Gunnlaugs í Kolding. Þetta er líka fallegasta leið að keyra því um stund er maður staddur í sveitinni, við keyrðum í skemmtilegri þoku. (Þær eru mun algengari hér en heima og afskaplega misfallegar og -skemmtilegar). Viðar frænda minn hef ég ekki séð í mörg ár og Mummi hefur aldrei hitt hann áður, eins og ég hef ekki hitt Sif hans Viðars áður. Þetta var prýðilegasti fjölskylduhittingur og auðvitað gaman að geta bæði deilt reynslu sinni af útlandinu og rætt fjölskylduna. Strumpan fékk líka félagsskap þar sem Viktoría Viðarsdóttir er á svipuðum aldri, Skottan fékk bara matarást á fimm ára frænda sínum sem sá um að hana skorti ekki kex.

Þremur dögum seinna fórum við í matarboð til Anne og Mads (til upprifjunar þá eru þau kennarahjón sem bjuggu í einn vetur á Íslandi, reyndar án þess að við kynntumst þeim en við skutum yfir þau skjólshúsi þegar þau áttu leið um Ak. fyrir tveimur árum). Þau búa líka í hinum endanum á Árósum svo við fengum aftur smá rúnt. Það stendur reyndar alltaf fyrir sínu, það er gaman að skoða ný hverfi.  Þau eiga sömuleiðis börn svo Strumpa lék sér við þau en Skotta fékk að njóta sín í nýju dóti, eins og reyndar í heimsókninni til Viðars. Þegar svo er þá verðum við nánast að skrifa á hendina á okkur að muna eftir að við eigum ekki bara eitt barn því það fer ekkert fyrir henni, ekki vandi á þeim bænum að fara í heimsókn. Við áttum góða stund hjá þeim og Mummi og Strumpan vöktu sérlega lukku fyrir að hafa bætt dönskukunnáttuna.

Um helgina lá leiðin til Skagen og eyddum við helginni í góðu yfirlæti hjá Kim og Bente. Við tókum því reyndar óvenju rólega, litum í bæinn á laugardeginum og fórum í heimsókn til Leif og Bente (sem eins og Anne og Mads eru vinir sem við erum að erfa frá Kristínu og Árna Hrólfi) auk þess að fara í göngutúr á ströndina á sunnudagsmorgni. Stelpurnar voru yfir sig ánægðar, hundur á báðum heimilum, annar þó öllu rólegri en hinn … Aftur fengu Mummi og Strumpan hól fyrir dönskukunnáttu enda var daman búin að bíða eftir að geta talað við þau síðan hún hitti þau fyrst og það er óhætt að segja að hún hafi látið til sín taka. Mummi hefur fram að þessu alltaf talað ensku við þau en talaði bara dönsku núna og fór létt með. Þannig fór helgin bara í át og samveru, eins og tilhneigingin hefur verið þegar við förum á þessar slóðir. Vigtin sagði sína sögu við heimkomu. Við horfðum reyndar á frábæran sjónvarpsþátt á laugardagskvöldið, ég hef ekki hlegið svona mikið í langan tíma. Þetta var enn einn raunveruleikaþátturinn og gekk út á að dáleiða fólk og láta það gera eitt og annað. Allt innan velsæmismarka samt. Sem dæmi má nefna að einn ungur maður, svona greinilega af góðum efnum, Norður-Sjálandstýpa í lögfræði, var látinn synda í pínulítilli laug innan um uppblásna hákarla sem honum var talin trú um að væru höfrungar. Hann náði þessu líka fína sambandi við höfrungana, var í lokin látinn halda að hann væri höfrungur og fékk sardínu að launum fyrir að sýna flott brögð.  Sem betur fer ekkert undir beltisstað, meira svona græskulaust gaman.

Á mánudaginn var fór Strumpan í sinn fyrsta fiðlutíma eftir langt hlé. Nýi kennarinn hennar heitir Mads og var afar viðkunnanlegur. Tímarnir eru í Læssøgadeskole sem er ágætt eins og er, en verður alvöru rúntur þegar hún flytur um set. Hún á líka að fara í hóptíma svo það bíður heilmikill rúntur. Það verða jólatónleikar eftir tvær vikur svo það er byrjað af hörku, hún átti að læra heima að spila Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, við gerðum það þannig að ég glamraði það á píanó til að hún lærði laglínuna og síðan þreifaði hún sig áfram með fiðluna og var ekki lengi að. Í gær var síðan fyrsti tíminn hennar í íslenskuskólanum, enn eitt sem kallar á keyrslu … ég ætla aðeins að gefa því séns en það byrjaði frekar rólega, tíminn fór allur í föndur og spil og næst á að búa til brjóstsykur (eða brjóstsyk eins og kennarinn sagði, hmmm.) Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessari keyrslu ef hún verður ekkert að sinna íslenskunámi, svo miklar áhyggjur hef ég nú ekki af því hvernig hún stendur (þó hún segi að hún komi for sent og það sé ekki mikið eftir tilbaka af einhverju 🙂 ).

Í dag fór ég í síðasta tímann á önninni, svona af því að ég ætla nú að skrópa í næstu viku til að fara á ráðstefnu til Kaupmannahafnar. Þá er næst að bretta upp ermar og fara að vinna eitthvað, það bíða tvær ritgerðir og eitt próf. Það er skrýtin tilfinning að tímarnir verði ekki fleiri enda verður næsta önn bara með einum venjulegum áfanga. Sá mun snúast um aðferðir við rannsóknir ef ég hef skilið rétt en að öðru leyti fer önnin í að vinna stórt rannsóknarverkefni (held ég). Mummi var líka í sínum síðasta tíma í dag en það er reyndar af því að hann ætlar að hafa meiri tíma til að sinna verkinu sem hann er að vinna fyrir Ellen. Það er tímafrekt að fara í skólann með, hann hefur tekið um fimm tíma á dag með ferðum. Enda er það búið að sanna sig að hann er orðinn fúllbefær og getur því alveg útskrifað sjálfan sig. Við vitum hins vegar ekki hvernig fer með skólaflutninga hjá Strumpunni en ég er að hugsa um að senda póst á kennarann og ýta við henni. Óttast bara að þau vilji ekki missa hana 😉 .

 

One reply on “Félagslíf af áður óþekktri stærðargráðu”

  1. Frábært að fá smá skýrslu 🙂 Héðan eru annars óskir um myndir – þegar ég spurði Gunnsteinn í dag hverjum við ættum að skoða myndir af (en það er nánast daglegt brauð að hann óski eftir því að skoða myndir) var svarið: „Hafdís, Sóley“. Svo að eftirspurn eftir myndum af ykkur er meira en framboðið 😉

Comments are closed.