Ferðalög og pestir

Við lögðumst í menningarferð til Randers á laugardaginn var. Hófum leikinn í Randers Regnskov til að nýta okkar góða ársmiða. Það var mikil sæla hjá dömunum, sú yngri sýndi jafnvel enn meiri áhuga en síðast. Í hverri ferð er eitthvað dýr sem við komumst nánast í snertingu við, í sumar var það api sem vappaði svo nálægt okkur að hann straukst við Strumpuna en núna var það eitthvað mauraætuafbrigði sem ákvað að það væri nauðsynlegt að hnusa af okkur, aðallega Mumma og Skottu. Eftir dýraskoðun var haldið í annars konar skoðun, svokallaða vöruskoðun. Hún fór fram í Randers storcenter og tókst svo vel að nokkrar vörur skiptu um hendur, ekki síst svokallaðar jólavörur. Það verður að segjast að það er býsna notalegt að krossa við á jólagjafalistanum svona snemma. Við uppgötvuðum nýjan áfangastað í Randers, þar er nefnilega hið danska Graceland. Ekki var það heimsótt í þessari ferð en stefnt er að því síðar. Bara af því að það er fyndið.

Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar Skottan brast í ælu. Mikill léttir að það skyldi ekki gerast í ferðinni en að öðru leyti tóm leiðindi eins og alltaf. Allir voru á tánum yfir að smitast og fundu reglulega draugaverki í maganum. Pestin stóð fram á mánudag og allir orðnir samdauna. Ég var ósköp fegin að daman náði heilsu í tæka tíð fyrir Kaupmannahafnarferð, henni var skóflað til dagmömmu á þriðjudag (að þessu sinni afleysingarmömmu sem olli skælandi barni við skilun) en þá var Mummi orðinn pestarpési. Hann hafði það  þó af að keyra eiginkonuna í rútu og hún skildi eftir lasarusana sína til að fara í skemmtiferð.

Í Kaupmannahöfn hitti ég þær stöllur Kristínu og Þórönnu. Við nýttum þriðjudaginn vel, gengum fyrst Strikið og síðan héldum við á Fiskitorgið. Ég var ekki í sérstakri verslunarþörf en náði þó að kaupa jólaföt á Strumpuna og á mig 🙂 en hafði að öðru leyti ekkert í atvinnumanninn sem eyddi drjúgum tíma í HogM. Sem betur fer var hægt að bíða í rólegheitum á kaffihúsi, mér leið svolítið eins og þreytta eiginmanninum í leit að sæti þegar ég var enn inni í búð. Eftir ósköpin var haldið á hótelið, mikil eftirvænting bjó um sig því þetta hótel var svolítið óvissuspil. Þarna er engin gestamóttaka, maður fær bara númer til að stimpla sig inn. Allt virkaði eins og það átti að gera, við komumst inn á herbergi og það leit vel út nema hvað herbergið var svona helmingi minna en það sem við höfðum séð á mynd (ég hélt að það væri gleiðlinsueffektinn en þetta var þá bara öðruvísi herbergi). Þar átti að vera kósístund með hvítvíni en enginn reyndist með tappatogara og við gáfumst upp á að opna flöskuna með öðrum leiðum. Enduðum kvöldið á Jensens bøfhus sem var einkar ánægjulegt, ekki síst dýrindis eftirréttur.

Á miðvikudeginum fórum við á ráðstefnuna sem bar yfirskriftina Hvorfor er dansk så svært. Hún fjallaði um stöðu dönskunnar sem samskiptamáti á Norðurlöndum. Hún var haldin á Norður-Atlantshafsbryggju í ævintýralega flottu húsi þar sem Vestur-Norðurlöndin hafa aðstöðu. Það var vel hugsað um okkur í mat og drykk og innleggin voru yfirleitt bæði skemmtileg og áhugaverð. Hins vegar var dagskráin býsna ströng og lauk ekki fyrr en um fimm. Þá héldum við heim á hótel (keyptum tappatogara á leiðinni) og slöppuðum aðeins af. Um kvöldið borðuðum við fyrst á Hard Rock og fórum þaðan í Tívolí – reyndar of seint og síðar meir, höfðum ekki áttað okkur á að það var bara opið til tíu, svo við höfðum bara hálftíma til að skoða. Það var óhemju flott að ganga þar um, að þessu sinni eru þeir með rússneskt þema sem kemur mjög skemmtilega út. Við náðum að versla aðeins meira og fengum svo náðarsamlegast að kaupa jólaglögg á Grøften þó að það væri búið að loka.

Ég kvaddi svo stöllur mínar á fimmtudag (með þunga tösku af jólagjöfum en hafði einnig náð að hrúga á þær líka) og sneri heim í hversdaginn og próflestur. Mín bíður próf á föstudaginn og það er ansans magn sem þarf að lesa. Ég sit við en sinni fjölskyldunni eftir megni líka. Þannig fórum við í julehygge í skólann Strumpunnar í dag. Þar föndruðum við (til dæmis hið klassíska jólahjarta) og fengum smákökur. Ég spjallaði við kennara Strumpunnar sem sagði að hún yrði sett í viðtal við sprogkonsulent í næstu viku til að meta stöðuna.