Mánaðarpistillinn

Þá er nánast mánuður síðan síðast og skrifast víst bara að hluta til á miklar annir. Nú er ég búin að hafa það náðarsamlegt í ellefu daga, síðan ég skilaði ritgerðunum mínum inn. Ég ætla samt að líta yfir farinn veg síðasta mánuðinn og skrifa jólafærslu og allan pakkann.

Ef ég byrja nú þar sem frá var horfið, þá lögðum við leið okkar til Kaupmannahafnar, sunnudaginn 18. des. Sunna var reyndar hundveik með 39 stiga hita, en hún var dópuð upp. Tókum lest snemma morguns, dætrunum til ómældrar gleði. Já, þetta er þægilegur ferðamáti fyrir fjölskyldur (svona fjögurra manna amk) þar sem er hægt að sitja öll saman og dunda sér. Við komum um hálf tólf og byrjuðum á að fá okkur KFC á Ráðhústorgi, algjörlega ómissandi, því ekki búum við svo vel að hafa KFC hér í Árósum. Þaðan lá leiðin á Strikið með tilheyrandi stoppum á kaffihúsi og hjá möndlusölum og þess háttar. Við gengum að sjálfsögðu alla leið upp að Nýhöfn og spásseruðum þar. Síðan fórum við í rólegheitum tilbaka og enduðum um hálf fjögur í Tívolí. Sunna svaf megnið af síðdeginu en Sóley var alveg heilluð af umhverfinu og við náðum einmitt ljósaskiptunum. Fröken fékk turbånd og fór talsvert í tæki, þó er hún auðvitað enn of lítil til að fara í aðal tækin (móðurinni til mikils léttis), við komumst reyndar að því að hún var rétt búin að ná nægri hæð til að fara í Dæmonen en það kom ekki til þess að hún færi í hann. Við vorum búin að panta borð á Hercegovinu (sem er veitingastaður í Tívolí) klukkan hálf sjö, en við vorum öll orðin köld og Sunna mjög drusluleg svo við flýttum ferð okkar og vorum þar um sex. Fórum á jólahlaðborð og það var mjög indælt en átti svo sem ekkert í góðugóðu jólahlaðborðin heima. Sóley komst þó á bragðið með ris a la mande. Við flýttum okkur bara heim á hótel (hið sama og ég var á fyrr í mánuðinum), vorum ánægð með herbergið sem var stórt og gott, allir fóru í bað (Sunna þó með háværum mótmælum, því hún kærir sig hvorki um bað- né sturtuferðir) og dömurnar voru fljótar að sofna.

Á mánudeginum byrjuðum við á að fara á kaffihús á lestarstöðinni og síðan tókum við strætó í dýragarðinn. Meðan við biðum eftir strætó, skemmti stóra systir þeirri litlu með söng, það er í miklu uppáhaldi að syngja „i dag er det mors fødselsdag, hurra, hurra, hurra“ og skýringin er væntanlega sú að hér á heimilinu er til bók sem heitir Annas mor har fødselsdag, þar sem þessi söngur kemur fyrir. Þetta hafði þau áhrif að aðrir sem biðu eftir strætó horfðu glaðlega á mig í þeirri trú að ég ætti afmæli. Kona sem stóð við hliðina á okkur spurði hvort við værum á leið í dýragarðinn, það var reyndar ekki búið að segja Sóleyju frá því en ég jánkaði og þá þyrlaðist daman auðvitað upp. Við áttum góða ferð þar, báðar dömurnar alveg yfir sig hrifnar af dýrunum og það var margt að sjá. Satt best að segja var þetta líka jákvæðari ferð fyrir mig, síðast þegar ég fór, með Sóleyju sex mánaða, varð ég þunglynd af því að horfa á dýrin svona innilokuð. Það er búið að gera eitt og annað síðan síðast svo þetta var betra.

Við fórum svo tímanlega af stað á lestarstöðina, borðuðum og bjuggum okkur svo undir að fara í lestina. Þá ropaði Sóley upp úr sér hvort við ætluðum ekki að sækja töskuna í skápinn… stress stress stress, ég hljóp af stað og náði á síðustu stundu til baka og við inn í lestina. Ég var  lengi að ná mér niður, bæði er formið nú ekki betra en svo en það var ekki síður adrenalínflæðið sem var á fullu. Að öðru leyti var ferðin heim tíðindalaus, við komum heim um kvöldið og tókum strætó heim.

Dagarnir fram að jólum fóru að mestu leyti í lærdóm og að finna eitthvað að gera á daginn fyrir Sóleyju. Hún fékk að byrja að skreyta en annars leiddist henni hálf. Á Þorláksmessu sóttum við Sunnu um hádegi, skreyttum jólatréð í rólegheitum, borðuðum pizzu og suðum hangikjöt. Aðfangadagur var að öllu leyti mjög rólegur, dæturnar horfðu á sjónvarpið, allir fóru í jólasturtu, ég fór í messu í Egå kirkju seinni partinn til að fá að upplifa samanburðinn (það er afar einkennilegt að Heims um ból sé ekki síðasti sálmur!) og svo borðuðum við klukkan sex, önd og ris a la mande. Möndlugrauturinn féll í góðan jarðveg hjá öllum (Sunna lét sér þó nægja nokkrar skeiðar, og fékk ís sem auka-eftirrétt) og ótrúlegt en satt, þá var það Sóley sem fékk  möndluna. Ekki var nú mikið pókerfés yfir því, það var opinberað um leið og það var ljóst.

Við foreldrarnir gengum frá með góðri aðstoð dætranna og tókum svo upp haug af pökkum, en í algjörum rólegheitum. Sunna var alveg með á nótunum og opnaði eins og atvinnumaður en hafði þó líka gaman af innihaldinu og staldraði oft við og skoðaði og dáðist að. Klukkan var orðin margt þegar þessu var lokið, þá var smá Skype og síðan var unga daman sett í bælið en hin fékk að vera á fótum lengur. Við hjónakornin lásum jólakortin undir miðnættið eins og oft áður og fórum svo í bæl.

Jóladagur var sömuleiðis rólegur, við fórum út í lítinn göngutúr í yndislegu veðri, borðuðum hangikjötið um kvöldið (og heimalagaða ísinn sem tókst vel en bragðaðist ekki eins og heima…) Um kvöldið horfðum við þrjú á Jólaævintýri Prúðuleikaranna, ætli við reynum ekki að gera hefð úr því, dömunni fannst þetta gaman.

Á öðrum í jólum fórum við í Den gamle by. Þangað var gaman að koma en yngsti fjölskyldumeðlimurinn var hvorki ánægður né þakklátur fyrir þessa ferð. Við höfðum hana ekki í kerru, til að eiga hægar um vik að komast um inni í húsunum og það kostaði bara vesen. En ég keypti árskort og fer kannski bara síðar og skoða í afslappaðri stemmingu. Ég kom þarna fyrst fyrir 20 árum og man að mér fannst það bara hæfilega gaman, sennilega hefur þroskinn eitthvað haft með áhugann að gera.

Á milli jóla og nýárs reyndi ég að halda áfram að sinna lærdómi, dæturnar voru samt báðar heima og fannst móðirin frekar leiðinlegur félagsskapur. Sóley kvartaði sérstaklega og finnst ég reyndar sinna náminu allt of mikið (svo það er erfitt að gera öllum til hæfis, mér finnst ég engan veginn sinna því nógu vel). Ég fór einn dag á bókasafnið til að ná góðum heilum degi en samt gekk þetta býsna hægt. Ákvað að taka áramótin samt alveg rólega og gamlársdagur og nýársdagur voru þannig algjörir frídagar.

Við gerðum samt fátt, á gamlársdag fórum við mæðgur þó í leikhús og horfðum á Bróðir minn Ljónshjarta og það var reglulega skemmtileg ferð, gaman að koma í leikhúsið líka. Um kvöldið borðuðum við rækjur, hrygg og sítrónufrómas og ég hafði að auki keypt míni kransaköku sem við gæddum okkur á um kvöldið. Við horfðum á sjónvarpið (halvfems års fødselsdagen er skylduáhorf) og hoppuðum niður af stól á miðnætti.  Reglulega notalegt, en í raun ekki  svo ólíkt því sem við erum vön. Sóley fékk líka þau tíðindi um miðnætti að hún fengi að fara til Íslands með pabba sínum. Að vísu var inngangurinn þannig að hún skildi það þannig að hún fengi ekki að fara og þá voru tárin fljót að spretta fram, svo hún var í mikilli geðshræringu þegar hún fékk tíðindin.

Á Nýársdag var það sama uppi á teningunum, við héldum okkur heima við, ég sinnti ritgerðarskrifum. Borðuðum nautakjöt og jarðarberjamousse. Það var einkar ánægjulegt að gefa dætrunum að borða alla þessa daga, þær borðuðu alltaf eins og herforingjar.

Sunna fór strax næsta dag til dagmömmunnar og ég á bókasafnið að skrifa, með hálfum huga því ég var ekki svo bjartsýn á að ég næði að ljúka ritgerðarskrifum en ákvað að láta vaða. Átti góðan dag á bókasafninu og var nokkuð bjartsýnni þegar ég kom heim um kvöldið. Næsta morgunn hjólaði ég með Sóleyju í skólann og fór svo aftur á bókasafnið og kláraði ritgerðina mína. Við hjónin fínpússuðum hana um kvöldið, bæði málfar og uppsetningu og þá var þetta frá. Henni var skilað daginn eftir og síðan hefur letin verið við völd.

Sóleyju líst vel á sig í nýja skólanum, eignaðist að sjálfsögðu vinkonu fyrsta daginn en er einna helst súr yfir að vera að læra stærðfræði sem er fyrir neðan hennar virðingu. Hún er skráð í sundklúbb í skólanum og byrjar á æfingum í næstu viku.  Þau feðgin eru búin að vera viku á Íslandi, hann að vinna og hún á fullu í félagslífinu, bæði búin að fara í heimsókn í gamla bekkinn og gista hér og þar, en er á leið heim í dag og verður sótt til Ellenar, samstarfskonu Mumma á morgun. Mummi skilar sér svo á fimmtudaginn.

Ég byrja aftur í skólanum eftir hálfan mánuð, á eftir góðan slurk af letistundum enn. Tímanum þessa dagana er eytt í lestur (með Kindlinum) og bíómyndagláp, það er sem sagt dönskukennarinn sem er að vinna þessa dagana, rólega þó.