Sumardagurinn fyrsti var haldinn nokkkuð hátíðlegur á heimilinu að íslenskum sið. Dæturnar voru á sínum stað um morguninn svo við hjónin notuðum tækifærið til að fara í Aros, það var takmarkaður áhugi á að deila þeirri ferð með áhugalitlum dætrum í hlaupagír. Ég hafði svo sem komið inn áður og séð Strákinn ofan frá en ekki meir. Við byrjuðum á því að kíkja á hann. Það var alveg jafn magnað og ég hafði ímyndað mér, hann er alveg ótrúlega vel gerður.
Síðan tókum við rúnt um safnið en slepptum reyndar efstu hæðinni sökum tímaskorts, enduðum í Regnboganum. Ég átti örlítið bágt vegna loftóróleika, vildi ekki labba alveg meðfram glerinu. Safnið allt ýtir reyndar undir þessa tilfinningu, glerlyftur og stigar opnir með útsýni niður allt húsið. Regnboginn var skemmtilegur eins og öll verkins hans Ólafs yfirleitt.
Síðdegis fórum við Strumpan í sirkus. Hún hafði verið mjög áhugasöm um það þegar kom sirkus síðasta sumar en það var haft af henni og því meðal annars borið við að það væri skemmtilegra að fara þegar hún skildi það sem fram færi. Þetta loforð var því efnt núna. Strumpan fékk að hafa með sér pening því ég var búin að lýsa því yfir að ég væri ekki að fara í sirkus til að borða. Hún var ekki lengi að sjá eitthvað freistandi, það var nefnilega verið að selja candy floss. Sýningin sjálf var að mestu leyti skemmtileg, mikið af loftfimleikum sem voru ansi tilkomumiklir. Þar bar hæst fjölskylda sem sýndi listir sínar á fílsbaki. Í hléi var boðið upp á að fara á fílsbak, sirkusfólkinu leggst alltaf eitthvað til í peningaplokki. Strumpan sem hafði ekki beðið þess bætur að hafa ekki fengið að fara á bak úlfalda í sinni fyrstu sirkusferð, þá fjögurra ára, fékk að fara núna, svo það yrði ekki varanlegt ör á sálinni. Því miður var ég ekki með almennilega myndavél, bara símann, svo myndirnar eru meira táknrænar en notkunarhæfar.
Síðustu tvær vikur er Skottan búin að vera vistuð hjá afleysingardagmömmu. Ekki þeirri sömu og hún hefur verið hjá áður, ég var hálffegin því, hafði ekki alveg fundist það virka. Daman var ekkert sæl yfir skiptunum til að byrja með, það munaði samt því að hún grét ekki þegar ég skildi við hana. Svo gekk mjög vel yfir daginn, það voru tveir krakkar þarna sem hún kannaðist við og lék sér með. Hún náði reyndar að veikjast enn eina ferðina, kvefaðist og fékk asma, það hefur þó ekki alltaf verið svo slæmt að hún gæti ekki farið til dagmömmu, oft er hún hitalaus, en núna kom leiðindafylgifiskurinn ælupúkinn líka og að þessu sinni hjá dagmömmunni. Hún var því heima tvo daga. Á hverjum morgni tilkynnti hún líka að hún ætlaði ekki til Gitte, átti það jafnvel til að fara inn í stofu að leika sér áður en við fórum af stað, til að sýna hvað hún ætlaði að hafa það huggulegt. Þetta sama barn faðmaði dagmömmunna alltaf í kveðjuskyni, svo ekki risti þetta djúpt. Nú er aftur komið að rútínunni, hún fer til Marianne á morgun.
Skottan hefur líka átt spretti sem fyndna barnið. Það er verið að æfa hana í að svara þegar hún er spurð að nafni. Aðal brandarinn til að byrja með var að segjast heita Bríet og þvertaka fyrir að heita Sunna, síðan kom nýtt afbrigði sem fólst í að segjast heita Jónsdóttir. Nú er þessi brandari búinn og barnið farið að kynna sig með sínu venjulega nafni, gjarnan hvíslar hún þó svarið.
Það eru líka byrjaðar æfingabúðir í að vera bleiulaus. Ekki ganga þær vel en keppandinn er mjög áhugasamur og vill gjarnan fá að vera bara í nærbuxum. Þetta hefur þó ekki gengið sem skyldi, staðan er nokkurn veginn pissað á gólf 15, pissað í klósett 0. Það er þó engin uppgjöf í gangi og búið að fjárfesta í fleiri nærbuxum. Stefnan er tekin á pissulaust gólf fyrir leikskóla eða fyrir þriggja ára aldur.
Þetta sama barn er líka að breytast í forhertan nammiglæpamann og hefur í því skyni þróað afburðagott nammiþefskyn. Það eina sem upp á vantar er að fela slóðina ögn betur og láta ekki góma sig fljótlega eftir að glæpurinn hefur verið framinn, svo hægt sé að njóta þýfisins betur.
Í gær var farið í bæjarferð, eiginmaðurinn búinn að panta sér rakstur, mæðgurnar ætluðu að eiga góða stund í bænum á meðan. Stundin var ekki jafn ljúf eins og stefnt var að. Ekki nóg með að það væri skítakuldi (sem var ekkert alslæmt því það afsakaði auðvitað HogM ferðina) heldur tók Skottan upp á því að fara í feluleik í HogM og var ekkert á því að láta góma sig. Hún náði þó að finna sér kjól, sem hún neitaði að leyfa móðurinni að halda á og dró á eftir sér um alla búð. Þessi nýja HogM íþrótt var móðurinni ekki að skapi, hún hefur frekar viljað stunda íþróttina „kaupum sem mest á sem stystum tíma“ og átt þokkalega spretti í henni. Það bætti þó úr skák að undir lokin var hægt að renna á lyktina af íþróttaálfinum, svo hann fannst og var gerður upptækur.
Eftir þessa „góðu“ ferð (þar sem glæst fortíð móðurinnar í HogM reddaði því sem reddað varð, kauplega séð) var Strumpunni komið í vinkvennaheimsókn og fór svo að hún gisti þar, hjónin áttu því notalega kvöldstund með sushi, hvítvíni og danskri eðalmynd. Unglingurinn var svo sóttur um hádegisbil í dag, hefði að sjálfsögðu viljað fá að vera lengur.
Í vikunni er stefnt að framhaldsferð í HogM, án barna í þetta sinn og síðan taka við siglingar, þegar Noregur verður sóttur heim í fyrsta sinn.