Við systur fórum í nýja búð í dag. Sú er í Kaupangi, þar sem Axel og Einar voru áður, og heitir Sælkerabúðin. Hún tengist reyndar fjölskyldunni hans Úlfs, því mamma hans Helga sem á búðina, átti mömmu hans Úlfs.
En semsagt, þarna er verið að selja alls kyns kræsilega rétti, aðallega fiskrétti en eitthvað af kjöti líka. Ansi margt sem lofar góðu. Við keyptum okkur þorsk í indverskri sósu og komum hér heim, seint og síðar meir. Sóley fór í bað á meðan við elduðum handa henni. Prins Valíant notaði tækifærið og tékkaði á fisknum fyrir okkur. Ég kom að honum í eldhúsinu með fiskstykki (hann hafði rist upp pakkninguna og nælt sér í – ég læri seint að hafa ekki mat á bekknum, en ég hafði talið það óhætt af því að Anna var frammi, hins vegar var hann snöggur til um leið og hún fór afsíðis). Sá vissi vel upp á sig sökina þegar ég kom að honum en hann ætlaði ekki að gefa fiskstykkið upp á bátinn og urraði og reyndi eins og hann gat að flýja. Ég hafði samt betur og skammaði hann rækilega, Sóleyju til ómældrar gleði.
Við elduðum samt fiskinn fyrir rest, Prinsi hafði bara tekið sinn sanngjarna skammt. Rétturinn var svona ógurlega góður, svo við stefnum að meiri viðskiptum við frænda hans Úlfs.
Að öðru leyti höfðum við það sérlega huggulegt. Við erum í vídeóham, horfðum á Grease 2 í gærkvöld, mjög vanmetin mynd, en nú er Jane Austen þema í gangi og við byrjuðum á tveimur fyrstu þáttunum af Pride and Prejudice. Þeir eru algjör klassík. Og hann Colin Firth mjög ungur og sætur.