Ég var að hugsa um að koma með ítarlegar lýsingar á skurðaðgerðunum sem ég var í í morgun, það var nefnilega verið að fjarlægja tvo fæðingarbletti af mér. Þeir voru báðir á frekar viðkvæmum stað svona blygðunarlega, annar á bossanum og hinn í náranum (engar nánari lýsingar svo það geti enginn hlaupið í fjölmiðla og sagst hafa sofið hjá mér og komið með lýsingar á fæðingarblettum því til sönnunar…) Sá á bossanum hefur fylgt mér alla ævi held ég, en annað hvort fór hann sístækkandi eða ég síminnkandi, að minnsta kosti var ég nánast farin að vega salt á honum. Hinn var nýtilkomin og þar sem ég fer reglulega í sjúkdómaleit á doktor.is leist mér ekkert á útlitið á honum. Núna er ég sem sagt tveimur fæðingarblettum fátækari. Get ekki sagt annað en ég hafi vorkennt aumingja Pétri og aðstoðarkonunni að þurfa að handleika afskorna fæðingarbletti sem eiga að fara í rannsókn. Mikið er gott að vera ekki læknir. Og lýsingarnar á aðgerðinni verða ekki nánari til að forða lesendum frá ógleði það sem eftir lifir dags.
Annars var ég að horfa á Ísland í bítið í endurtekningu og sá af tilviljun tvo kunningja. Það er þessi trúbadorakeppni í gangi og ég tók allt í einu eftir kunnuglegu fési, þá var það Bjartur vinur hans Sigga mágs. Hann var mjög góður að trúbadorast, eins og við var að búast, svo ég vona að hann vinni (ég sá ekki þann fyrsta en sá síðasti var sínu verri) og þá kemur hann aftur á morgun. Hinn kunninginn er meira svona gamall kunningi frá því fyrir tíu árum eða mannsævi eða svo. Ingvar Jónsson. Langt síðan ég hef séð hann eða heyrt (held reyndar að ég hafi síðast séð hann í sjónvarpi í ristilspeglun eða eitthvað álíka). Ingvar er TrúbadorINN með stórum staf og greini.