106893664157716557

Og þá kemur vonandi fallega færslan sem á erfiða fæðingu. Það var í fyrsta lagi hillan sem kom í hús í dag og Mummi fékk heiðurinn af að setja saman. Hún kemur svona ljómandi vel út, allir DVD diskarnir hýstir þarna og pláss fyrir meira. Stofan þurfti aðeins á breytingu að halda til að nýju hillurnar kæmust fyrir en hún tekur býsna lengi við. Næstum eins og geymslan sem einnig gengur undir nafninu Svartholið.
Nú er ég að hlusta á Til eru fræ – þá dettur mér annars vegar afi í hug – það er bara indælt, en svo minnir þetta mig líka á Dúdda og Ágústu og það er frekar sorglegt.

Í dag fórum við í sveitina. Það telst bara til tíðinda af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að á leiðinni þangað fór ég að spá í hvernig það væri, ef ég gæti altíeinu og óforvarandis keypt mér hús, hvort myndi ég kaupa húsið hennar ömmu (aðallega fyrir Mumma og Önnu Steinu) eða fá mér hús í sveitinni. Þetta er svo erfitt val að ég er nánast þakklát fyrir að þessar aðstæður koma ekki upp.

Hins vegar var það heimferðin. Hún var eins og klippt út úr fallegri náttúrulífsmynd. Það var svona týpískt Akureyrarvetrarveður, frost og stilla. Það óvenjulega var tunglið. Þegar við vorum komin svo sem eins og að Gröf (það þekkja allir Eyjafjarðarsveit, er það ekki?) blasti það við, svona eins og til hliðar við nyrstu fjölinn í firðinum (vestan megin). Það var ógnarstórt, svolítið gult og smá skýjahula yfir. Mumma fannst þetta vera eins og Death Star (2). Þegar nær Pollinum dró, var tunglið eins og í mynni fjarðarins og speglaðist í Pollinum, eins og Vaðlaheiðin og Akureyrin sitt á hvað. Ég held að ég hafi sjaldan séð tunglið og umhverfið flottara en þarna og ekki nema fyrir hörðustu sálir að falla ekki í stafi. Eða þannig.
Popppunktur bjargaði svo kvöldinu. Ég gerði nefnilega þau leiðu mistök að byrja að horfa á Breakfast club – á þetta ekki að vera eitthvað meistaraverk? Alveg klénar persónur og Emilio vægast sagt ekki sannfærandi íþróttastjarna. Yfir Popppunkti voru svo pönnukökur að hætti Mumma (Hafdísar og Vilkó), gerist ekki betra. Verst var að það var hörmungarsveitin Vínyl sem vann, mínir menn að þessu sinni voru Á móti sól – þó ég sé ekki mikið fyrir gleðisveitir. Og Felix átti mismæli ársins þegar komið var að liðnum Hljómsveitir „sprautar“ sig!! Viljandi eður ei.