Verður maður ekki aðeins að bæta fyrir bloggagnir síðustu viku? Í fyrsta lagi hefði ég betur sleppt því að tjá mig um heilsuhreysti dótturinnar þar sem hún hefur basically verið veik síðan. Var ruslað á leikskóla í dag í þeirri von að nú væri þetta allt að koma. Stefnan er svo tekin á dr Pétur á miðvikudag.
Í öðru lagi var ég á meiri háttar árshátíð VMA á föstudagskvöld. Góður matur og dansað alveg svakalega – það þarf ekki meira til að gleðja mig. Ég bý svo vel þessa daga að vera allt í einu komin með jafnöldru í samkennarahópinn og fékk meira að segja nokkuð gott eintak, virðist vera. Við fórum alla vega saman í tveggja manna partý heim til hennar eftir ballið og kjöftuðum þar. Skondið þegar maður er að máta nýja vini, þetta er svolítið eins og að vera að deita. Hvernig passa skoðanir, smekkur, aldur og fyrri störf saman??
Laugardagurinn var frekar lítill afrekadagur, nema hvað Sóley fór í íþróttaskólann, var nokkuð góð til heilsunnar þann klukkutímann, og ég afrekaði það að fara með, syfjuð og angandi af áfengi 🙂 En þreytt var ég.
Gærdagurinn var aðallega heimsókna- og sjónvarpsdagur. Betra liðið vann í PP-i, sæmileg gleði þar. Og Örninn eilíf uppspretta gleði. Liggur við að ég horfi á hann á SV1 og DR1 til að sjá hann mörgum sinnum.