Fyrst eru það fregnir af Strumpunni. Hún fékk rör og losnaði við nefkirtla í gær (þeir voru ógnarstórir og til þess eins fallnir að framkalla hærri hrotur en annars). Aðgerðin lukkaðist vel en stutta var þreytt vel og lengi á eftir, vaknaði með látum rétt eftir aðgerð en svaf svo að mestu í eina þrjá tíma, svo þetta var drjúgur tími á sjúkrahúsinu. Á leiðinni heim bar hún sig aumlega og sagðist langa í pönnukökur og það var að sjálfsögðu látið eftir henni. Hún var svona frekar minni í sér en venjulega í gær, en samt ekki svo eftir sig að hana langaði ekki aftur á sjúkrahús og bað voða fallega um það í gærkvöld. Brandari dagsins var að sjá áhrifin af kæruleysislyfinu, það sást gjörsamlega hvenær áhrifin hófust, augun urðu syndandi og hún setti upp heimskuglott og fór að bulla. Sagði upp úr þurru „það er enginn klósettpappír hér“ og fór svo að syngja alls kyns bull og við hlógum auðvitað eins og fífl og þá glotti hún okkur til samlætis. Hún er heima í dag til að jafna sig en svo er það bara harkan aftur á morgun.
Hinn grísinn minn – þessi vo-grís, hann er líka heldur að skána, ef eitthvað er. Hræðilegt útlit mitt á mánudag var kannski orðum aukið en samt vildi maður óska þess að vera símadama þegar svona stendur á. Í dag er ég bara sérlega rauð í innri augnkróknum á því hægra, svo það sleppur svo sem að vera meðal manna. En ég man örugglega minn fífil fegurri.