Fyrst af öllu er tilkynning. Fyrir þá sem ekki höfðu áttað sig á, þá eru komnar myndir af Sóleyju inn á síðuna hennar. Þær eru hver annarri sætari, gengur eiginlega svo langt að hún stefnir í að vera sætara barn en ég.
Í dag var laufabrauðsdagur hinn fyrri. Fór til tengdó og skar út nokkrar kökur af mínu alkunna listfengi. Sem betur fer reyndi ekki um of á hugmyndaauðgina þar sem ég fór í jóga í miðjum útskurði. Það var heldur betur orðið tímabært, sennilega um hálfur mánuður síðan ég fór síðast, út af þessari djö… skítapest. Enda var þetta ansi hreint ljúft.
Systir hringdi svo til að staðfesta endanlega komu sína, ég var reyndar svo utan við mig að ég gleymdi að spyrja hana hvenær hún fer, en hún verður komin hingað viku fyrir jól. Sem hentar vel, ég ætti að vera búin að fara yfir flest eða öll fjarkennsluprófin þá.
Meira um jólagjafaóskalista. Ég er svolítið „torn between two lovers“ í þeim efnum. Annars vegar væri ég alveg til í að telja upp hitt og þetta hérna sem mig langar í (meira heldur en sýnishornið sem fékk að flakka hér um daginn). Hins vegar finnst mér að allir sem á annað borð eru að gefa mér gjafir, eigi að þekkja mig svo vel að það þurfi ekki. Þetta hefur að vísu ekki reynst vel. Þeir sem þekkja mig, eiga til að mynda allir að vita að ég er funheitur Nýdanskar aðdáandi og hef verið frá upphafi. Samt hef ég ekki fengið síðustu tvo diska í jólagjöf. Ég sem hef sérstaklega sparað að kaupa þá til þess að geta fengið þá að gjöf. Svona geta augljósu hlutirnir verið of augljósir.
Að lokum má ég ekki gleyma að minnast á að ég lauk loksins við lestur á Ísfólkinu. Ekki seinna vænna. Það verður að segjast alveg eins og er, að sumar bækurnar voru einum of súrrealískar fyrir minn smekk. Þannig að ég efast um að ég eigi eftir að lesa þær aftur. En þá er maður alla vega búinn með þennan kafla í lífinu. Ég get heldur ekki gert að því að þetta myndar ákveðið tómarúm. Ég þarf að fara að finna eitthvað nýtt og spennandi að lesa.