107058647622652608

Það er aldrei að ég er orðin menningarviti. Var að koma af tónleikum rétt eina ferðina. Að þessu sinni með Friðriki nokkrum Ómari. Eflaust þekkja hann fæstir aðrir en erki-norðanmenn og dugar varla til. (Hann er reyndar hálfbróðir hans Halla Gulla trommara…segir það ykkur eitthvað meira?)
Í mínum huga var hann þekktastur fyrir Lag Fiskidagsins mikla en hefur eitthvað komið að Landslaginu og söng líka á plötu sem var að koma út sem heitir Íslensk ástarljóð.

Þetta voru jólatónleikar, þar sem hann söng vel þekkt jólalög með undirleik hljómsveitar. Rosalega spes, það verður að segjast eins og er. Drengurinn getur sungið, það vantar ekki. En hann getur líka talað. Hann sagði sögur af sjálfum sér á milli laga og ég var ekki alveg að kaupa þær fyrst en svo varð þetta ósköp heimilislegt. Ég veit ekki hvort hann er að gefa út disk en ef svo væri þá myndi ég alveg vera til í að eiga hann.

Annars kom þetta þannig til að Arnheiður fékk frímiða og bauð mér, ég hefði ekki farið til að borga mig inn. Tónleikapeningur þessarar viku er farinn. Ég er nefnilega búin að kaupa mér miða á Óskar. Hann verður með tónleika á sunnudaginn og það liggur við að ég þurfi að spara gæsahúðina því hún verður sjálfsagt föst á alla tónleikana hans. Kannski verð ég köld alla vikuna á eftir?