107075644371152527

Ótrúlegir þessir dagar þar sem maður er að frá morgni til kvölds. Þetta var einn af þeim. Það var laufabrauð í dag og ég var mætt í Akurgerði klukkan ellefu. Ekki að það sé gríðarlega snemmt. Þar var laufabrauðið með hefðbundnum hætti, við fá en góð… Þeir félagarnir Aron og Eyþór alveg eins og jólar. Sungu með jólalögunum og kepptust við að skera asnalegar kökur (hver kemur flestum strikum á köku og álíka). Jóladiskurinn sem Óli bróðir gaf öllum hér um árið er alltaf spilaður og minnir mig alltaf jafn mikið á hann. Fyrsta lagið er nefnilega Thank God it’s Christmas – mjög Ólalegur titill, en síðan eru gullkorn eins og Jólagjöfin mín í ár, sem er lagið okkar Óla – við gátum sameinast í gullfallegum dúett þó að við værum að rífast og slást þess á milli 🙂

Eins og það sé ekki nóg fyrir venjulegan dag að fara í laufabrauð, þá var líka jólakortaframköllunardagur og nautakjötsniðurskurðardagur. Og ég lýg því ekki, mér féll ekki verk úr hendi fyrr en klukkan var langt gengin í tólf. Straujaði meira að segja yfir Popppunkti.

Verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir Óla og Eygló í þættinum. Hætti að vísu að horfa áður en yfir lauk því ég var svo móðguð yfir úrslitunum. Kannski ég verði bara að fara að hætta að halda með annarri hvorri sveitinni því mín tapar alltaf. Dr Gunni var að vísu óvenju góður með stigin fyrir „Hljómsveitin spreytir sig“ – kannski hann sé farinn að lesa bloggið mitt og hafi séð athugasemdina mína um daginn?
Aðeins meira um sjónvarp áður en ég lýk umræðuefninu. Ídól í gær var frekar dapurt. Margir keppendur að velja alveg fáránleg lög og það sem meira var, dómararnir voru svo klénir að það skein langar leiðir í gegn með hverjum þeir halda. Hvað er það með hana Tinnu? Hún tók Presley verulega illa og samt fær hún „vá!“ Hrmpf. Það fór líka eins og ég spáði. Vala var allt of umdeild til að komast langt. Mér fannst hún algjörlega hressandi. Ekki svona eins og hver önnur stelpa í Celine Dion fíling. Það er Anna Katrín reyndar ekki heldur. Þess vegna held ég með henni og Helga Rafni. Þó að Helgi hafi ekki átt góðan dag í gær.

Náði í ansi hreint spennandi bók á safninu. Ljónadrengurinn heitir hún og ég er að byrja að lesa hana. Hún byrjar frekar furðulega en það verður gaman að sjá hvort hún stendur undir ritdómum.

Að lokum. Afrek ársins var unnið í gær. Ég afþýddi ísskápinn. Jólahreingerningin í ár.