107083901355908648

Menningarpósturinn að þessu sinni fjallar um tónleikana hans Óskars. Loksins, loksins. Verulega indæl stund eins og hans er von og vísa. Átti líka ansi skemmtilega dúetta með Jónsa (sem söng til dæmis tvö lög í staðinn fyrir Diddú) og gerði mikið úr kynþokka hans í kynningu. Sagði hann hafa verið beran að ofan baksviðs og ef hann hefði verið kona hefði hann ekki verið kominn fram til að syngja. Kom sínum kynþokka líka að, þegar hann sagði frá gömlu konunni sem skalf þegar hún hlustaði á hann – hann lyftist allur upp – þangað til hann hitti son gömlu konunnar sem talaði um hvað væri skelfilegt hvað móðir sín væri slæm af Parkisons.
Hann átti líka góðan punkt þegar hann söng „Þú átt mig ein“ og tileinkaði konunni sinni það, af því að það væru svo margar eldri konur farnar að eltast við hann 🙂

Gæsahúðin sem ég lofaði kom í tónleikalok, eins og þykk nautshúð. Óskar tók „Ó, helga nótt“ með aðstoð Karlakórs Akureyrar – Geysis. Ég sat og rifjaði upp gömul aðfangadagskvöld í kirkjunni, þegar hann tók þetta. Mér finnst þetta reyndar alveg ofboðslega fallegt lag, nema þegar popparar nauðga því í bak og fyrir, Egill Ólafs eða Sigga Beinteins til að mynda. Það er erfitt að gera upp á milli Diddúar og Óskars, Diddú er líka gæsahúð en Óskar er svona heimilislegri. KiddiJóaKonn er auðvitað fínn líka en trukkurinn er kannski einum of samt. Nú verð ég hins vegar að fara að draga upp fleiri jóladiska og taka forskot á nokkur ofur hátíðleg – það er eiginlega ekki nóg að hlusta á sum lög tvo daga á ári.

Horfði ögn á „Maður á mann“ (eða ætti maður að segja „Mann á mann“) áðan þar sem viðmælandinn var Hallgrímur Helgason. Með blendnum hug þó, því ég er ekki alltaf hrifin af honum. Hef til að mynda aldrei klárað bók eftir hann og hef þó byrjað á þeim þremur. Þær eru ekki beint leiðinlegar en einhvern veginn ekki nógu grípandi. Hallgrímur átti ágæta punkta að þessu sinni. Var spurður út í hvort hann hefði verið spældur að teljast til ofmetnustu Íslendinganna en hann kom bara með heimatilbúna skýringu á því af hverju hann var á þeim lista.

Talandi um ofmetna Íslendinga. Er ekki Barði í Bang Gang efstur á blaði þar?