107092424354001925

Upphitun fyrir jólin gengur vel. Annars vegar er ég komin með gömlu, góðu jólalögin út í bíl. Kertaplötuna sem maður mátti spila í þrjá daga á ári hérna í fyrndinni. Já núna er maður aldeilis kominn með Snæfinn snjókall á geisladisk og Sóley er í jólalagaátaki, smá pása frá Pílu Pínu.

Hins vegar er verið að æfa magann fyrir ósköpin. Bakaði tvær marengstertur í gær, af því að ég átti slík ósköp af eggjahvítum. Svo var sett á aðra í kvöld. Þvílík bomba að maður þolir varla nema eina sneið. Buðum þess vegna tengdó í kaffi, annars hefði kakan verið mission í viku eða meira.

Lenti annars í þvílíka ruglinu í Bónus í gær. Við sáum okkur nefnilega til mikillar gleði að tveggja lítra kók var á ofur tilboði, eða 127 krónur fyrir tvo lítra. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að versla fyrir jólin (ég er að vísu nánast alveg hætt að drekka kók en maður fær nú kannski extra marga gesti). Keyptum tvær kippur og vorum auðvitað ægilega lukkuleg með okkur. Nema hvað, þegar þetta fer svo í gegnum kassann kemur í ljós að kippan kostar 999 krónur. Sem er ekki 127 krónur per flösku. Það var hins vegar ógnar mikið að gera svo við löbbuðum út og réðum ráðum okkar. Ég labbaði svo inn, athugaði verðmerkingarnar aftur í hillunni, svona til öryggis og jú, þar var samviskusamlega merkt að 2 lítrar væru á 127 en kippan á 999. Ég fann starfsmann og spurði út í þetta og fékk að vita að þetta stæðist, stöku flöskurnar væru ódýrari heldur en kippan. Needless to say þá var nú gáfum mínum illa misboðið. En þar sem það var frekar margt fólk í búðinni, ákváðum við að fara í leiðangur í dag. Svo ég fór í dag. Skilaði mínum tveimur kippum, fékk inneignarnótu upp á 1998, labbaði inn í búð, keypti tólf flöskur, borgaði 1524+poka. Ég er ekki enn búin að röfla við verslunarstjórann, ég ætla nefnilega fyrst að auglýsa út um allt (meðal annars hér) hvað þetta er fáránlegt – svo ætla ég að hringja og lýsa yfir móðgun.