Jamm, það eru tveir dagar í 1. des. og andrúmsloftið í skólanum farið að snúast æ meira um stúss í kringum árshátíðina. Stelpurnar tala varla um annað en kjóla og hár og þetta smitar svo út frá sér að í dag var þetta umræðuefni kennaranna í löngu. Gekk svo langt að ákveðinn íslenskukennari bað okkur kennslukonurnar að gæta að fatavali okkar, við ættum ekki að skyggja á stúlkurnar í 4. bekk. Rifjaði upp í því samhengi kjólinn sem Sonja Sif var í á sinni fyrstu árshátíð, en hann átti að hafa verið úr bláu stroffi sem náði svona frá miðjum brjóstum og að miðjum rassi eða svo – þannig að vesalings strákarnir í 4. bekk gátu ekki af henni augun tekið. Þetta vakti mikla kátínu og gott ef Sonja neyðist ekki til að koma í kjólnum aftur til að afsanna þessa mynd sem var dregin upp. En þið sjáið að það er ákveðinn vandi á höndum, maður þarf að vera huggulegur án þess að vera stórglæsilegur, hvað þá, god forbid, kynæsandi.
Á þessum nótum, ég er að hugsa um að fara í fræga Filippu K kjólinn minn (kannski kemur þá mynd af mér í Séð og heyrt – Hafdís, 33 ára, geislar af glæsileika í kjól frá Filippu K) en ég þarf hins vegar að athuga sem fyrst hvort ég sé nokkuð orðin eins og rúllupylsa í honum og finna plan B ef svo er. Hann gefur nefnilega ekkert sérlega eftir. Nú eða finna svona nærföt eins og eru alltaf í „How to look good naked“ – þau virðast minnka mann um margar stærðir 🙂