Ætla endilega að ná einni færslu svona í lok árs. Hef náttúrulega bara verið löt að blogga í fríinu en það hefur hins vegar verið eins og jólafrí eiga að vera. Ég hef sofið vel og lengi, og þess á milli hef ég étið, lesið og spilað, sönn uppskrift að góðum jólum. Fékk margt góðra gjafa, Mummi fór, eins og mig grunaði, í útivistarþemað, svo nú á ég GPS til að rata á ferðum mínum um hálendið en hann laumaði nú GM á dvd með, sem ég á reyndar eftir að horfa á, er enn í sæluvímu eftir tónleikana sem þeir sýndu á Sirkus 22. des. Jólakortin voru enn sem fyrr mjög skemmtileg. Bæði myndir og árspistlar eru alltaf vel þegin. Kortin voru reyndar að berast aðeins fram yfir jól en gott og vel, ég get ekkert sagt og sannarlega betra að fá þau seint en aldrei.
Náði einu afreki – fór út að hlaupa 28. des. eftir að vera alltaf og ævinlega að sjá hlaupandi fólk um allan bæ. Tók svona rúmlega 5 kílómetra, sem var meira en ég þorði að vona, í ljósi þessi að það eru rúmir tveir mánuðir síðan síðast. Uppskar vondan verk í mjöðm alla næsta dag og svo strengi dauðans þegar verkurinn fór og sýnist mér að það dugi ekki að hlaupa á tveggja mánaða fresti. Verð að endurskoða það.
Búin að lesa tvær (jæja eða þrjár, ein telst varla með nema fyrir harða royalista) bækur, Mummi fékk nefnilega bæði Konungsbók og Aldingarðinn í jólagjöf frá TM. Báðar alveg ágætar, ég kann alltaf vel við Ólaf, ætli það sé ekki bara uppeldið frá ömmu að skila sér? Hins vegar verð ég að auglýsa þá ágætu bók – Undantekningin – sem ég fór og keypti mér bara sjálf og prívat eftir jól. Er reyndar ekki búin með nema svona fjórðung eða þar um bil en sú lofar góðu, ja amk fyrir þá sem eru hrifnir af svona mannlegstúdíubókum.
Ég ætla ekki að skrifa neina uppgjörspistla eftir árið. Þið hafið hvort eð er lesið um allt það sem bar hæst, efast um að ég hafi fengið marga nýja lesendur síðustu daga. Verð þó að nefna mann ársins í mínum huga, var of löt að hringja eitthvurt. Andri Snær, takk fyrir að vekja mig ærlega til umhugsunar!