Leiðindavika

Þessi vika, sem stefndi í óefni með vegna mikilla anna á útstáelsis-sviðinu, varð heldur betur öðru vísi en áætlað var. Á mánudag tóku feðginin upp á því, nánast á sömu mínútunni að veikjast. Mummi labbaði heim um hádegisbilið og Sóley var sótt um kaffileytið. Heilsufarið var svo lélegt að ég þurfti að vera heima á þriðjudag til að hjúkra báðum. Það bráði reyndar fyrr af Strumpunni, hún tók mánudag og þriðjudag í þetta, strax á miðvikudag var heilsan öll að koma til og hún var alveg hitalaus í gær. Mummi hefur hins vegar ekki séð til sólar nema svona útundan sér út um stofugluggann, þar sem hann neyddist til að halda til á miðvikudag og fimmtudag til að hafa Strumpuna sem mest til friðs yfir sjónvarpinu…. Já, uppeldið fer aldeilis í vaskinn við svona kringumstæður.

Við áttum síðan að vera í leikhúsi í gær en frestuðum því svo Mummi gæti farið með (án þess að hósta leikendur í kaf) en í staðinn fór ég á fatakynningu hjá Arnheiði. Síðan hófst páskaleyfið mitt, einum degi fyrr en til stóð reyndar, Mummi pikkaði í mig kl 8.04 í morgun og spurði hvort ég væri ekki að sofa yfir mig. Argh. Svo hann neyddist til að harka af sér og fara með fröken í leikskólann og ég náði svona nokkurn veginn að mæta á réttum tíma til kennslu.

Í kvöld er partý hjá einum samkennara mínum sem við höfðum bæði ætlað í en ég sé nú ekki fram á það, enda er ég svo sem ekki í miklu partýstuði en ætli ég líti ekki inn. Á morgun er síðan djamm með Round Table, það er ekki einleikið hvað sumar vikur verða pakkaðar. Ég var eiginlega bara fegin að fresta leikhúsinu til að minnka aðeins álagið. Hef ekkert verið heima á kvöldin heldur, bara hent Strumpu í rúmið, farið í gönguferð og svo í vinnuna, til að koma ákveðnum verkefnum til nemenda fyrir páskafrí. Sem btw er þá formlega að hefjast eftir tvær kennslustundir eða svo… 🙂