Ástarsamband

Ég er algjörlega fallin fyrir Alexander McCall Smith!! Það virðist vera sama hvað maðurinn skrifar, ég er alltaf jafn hrifin. Gerði reyndar þau mistök á sínum tíma að kaupa Kvenspæjarastofuna á íslensku svo nú þarf maður alltaf að bíða eftir þýðingum en sem betur fer keypti ég Sunday Philosophy Club á ensku, þá þarf maður bara að bíða eftir honum sjálfum. Og það er sko engin Rowling-bið, maðurinn ryður bókunum upp úr sér. Ég fer að halda að hann hafi her manns í því að skrifa undir sínu nafni… hvað á maður að halda? Það er væntanleg ný um Isobel fljótlega en á meðan ég bíð er ég að lesa 44 Scotland Street seríuna, er sem betur fer nýbúin að uppgötva hana og er bara í Espresso Tales í augnablikinu og á því eina enn inni – nú og svo er ný á leiðinni líka. Ég er alltaf hrædd við að verða fyrir vonbrigðum þegar ég byrja á nýrri seríu eftir hann, þess vegna beið nú Scotland Street óvenju lengi en ég held að ég fari bara að treysta á okkar góða samband. Mig dreymdi hann meira að segja um daginn, þá var hann (eða reyndar hún í draumnum) að árita bækur og það vildi svo vel til að ég var með Scotland Street á mér, en þegar til kom fann ég hana ekki. Annars er bara nóg að gera í lestri. Ég keypti mér ansi margar bækur í útlandinu og smá geng á staflann – eins gott að vera í fríi. Og svo uppgötvuðum við mæðgur hana Fíusól, sem ég keypti handa henni fyrir sunnan. Það er skemmst frá að segja að við kláruðum bókina á tveimur dögum og ætlum á bókasafnið á eftir til að athuga með hinar.