Við fórum í leikhús í gær, með Sóleyju og tengdamömmu að sjá Óvita. Það var búið að leggja mikið upp úr góðri hegðun í leikhúsi, enda mikið mál að fara á alvöru stykki að kvöldi. Svo var búið að telja niður, nánast síðan miðarnir voru keyptir fyrir um mánuði síðan og Strumpa var óspör á auglýsingar og tilboð til samnemenda sinna að koma með. Ekki nóg með það að þetta væri ógurlegur hátíðisdagur að fara í leikhús, við fórum fyrst á Greifann, sem olli því að þetta var orðið eins og jólin sjálf. Hún elskar að fara á Greifann, vill helst fara þangað oft í viku og skilur ekkert í dræmum viðbrögðum okkar þegar hún fær þessar góðu hugmyndir.
En já, að stykkinu. Fyrst verð ég eiginlega að deila eigin upplifun og síðan upplifun dóttur minnar. Ég var alveg í skýjunum með leikritið. Mér finnst uppfærslan alveg mögnuð, mjög skemmtilega unnið með rýmið og gaman að hafa tónlist með, maður fann smá Jónsáhrif inni á milli. Leikararnir voru margir hverjir alveg frábærir. Guðjón Karl með sinn venjulega performans eiginlega en það átti bara einstaklega vel við. Sumir krakkarnir alveg lygilega góðir og býsna flinkir að syngja. Verkið sjálft þörf pæling.
Strumpan iðaði í sætinu og spurði á mínútu fresti hvað klukkan væri fram að sýningu. En þegar leikritið hófst var hún með ólíkindum róleg. Horfði bara. Spurði reyndar í hvert skipti sem ljósin slokknuðu hvort þetta væri búið núna. Hló ekki sérstaklega mikið, aðallega að skrípalátunum og margt sem fór örugglega fyrir ofan garð og neðan hjá henni. En til marks um það að hún fylgdist þó með þá brast hún í grát í seinni hluta verksins þegar kemur smá sorglegur kafli og við foreldrarnir reyndum eins og við gátum að hugga hana þar sem hún sat á milli okkar. Hún var samt alsæl – og mjög þreytt – þegar sýningin var búin og greinilegt þegar við komum heim að það var mikið spennufall. Hún fékk bol merktan sýningunni frá ömmu sinni og ætlaði þvílíkt í hann í dag enda var hún líka að fara á ömmu leikskóla, því Naustatjörn er lokuð í dag.