Fljúgandi dagar

Þessi vika hefurverið vika hinna miklu fundarhalda, eins og það væri ekki nóg af fundum svona venjulega þá tókst mér að lenda í skólaráði og svei mér ef ég missti mig ekki óvart inn í stjórn kennarafélags MA. Miðvikudagurinn var til dæmis mjög súrrealískur, þá fór ég á kennarafund, beint á foreldrafund á Naustatjörn, út af miðjum fundi til að fara í leikfimi, náði að fara heim að borða og síðan beint á fund um næringarfræði á Bjargi. Ég var komin heim klukkan hálf ellefu og ég fór bara beint í hátt, vitandi að ég ætti að vakna upp úr hálf sex til að mæta í næsta leikfimitíma.

Það er samt ekki eins og það hrynji af mér smjörið. Það drýpur svona rétt af í mesta lagi. Ég reyni að halda ró minni, þetta er jú allt í rétta átt og enn eftir 9 vikur af námskeiði. Fituprósentan dregst aðeins saman og ég þarf ekki að vera alveg jafn hrædd um að setjast í sumum buxum (svona ef þær skyldu nú spretta utan af mér…)

Átti alveg frábæran laugardag fyrir viku. Fór með samkennurunum í Svarfaðardalinn og það var auðvitað ekkert minna en unaður. Keyrðum fyrst á Dalvík, fengum til dæmis innsýn í líf ríka fólksins (sáum nýtt hús sem ku vera um 500 fermetrar, með þreföldum bílskúr) og síðan keyrðum við inn Dalinn að austanverðu, skoðuðum Vallarkirkju, stoppuðum í Tungnarétt til að pissa og keyrðum síðan fram að Skeið og gengum þaðan upp að Skeiðsvatni. Ýmsir fóru hamförum í Landsogsona tilvitnunum, ég sé fram á að þurfa að sjá hana aftur. Gönguferðin var frábær og ótrúlega fallegt upp við vatnið. Snjórinn kominn niður í miðjar hlíðar fallegu svarfdælsku fjallanna. Tignarlegt.

Eftir göngu fórum við í félagsheimilið Höfða og drukkum þar kaffiogmeððí. Þaðan var haldið að Þverá í Skíðadal. Þar býr og starfar brúðuleikarinn Bernd Ogrodnik og hann sýndi okkur sína hæfileika. Hann er meðal annars að vinna að Einari Áskeli og var búinn að gera fyrstu dúkkuna og hún var mjög sæt – lofar góðu. Hann sýndi okkur líka nokkrar stuttsýningar og átti athygli okkar fullkomlega. Ja, ef maður væri svona flinkur í kennslunni 😉 .  Þegar okkur tókst loks að slíta okkur frá Bernd héldum við að Húsabakka og borðuðum þar saman. Á leiðinni heim var sungið (vorum aðeins búin að taka lagið áður, meðal annars syngja Svarfaðardalinn tvisvar) og við Hóa enduðum á dúett þar sem við tókum In the jungle. Alltaf fínt lag.

Lítið hefur gengið í fiðlunámi. Við höfum jú æft okkur að standa rétt og halda rétt og reynt að sýna fröken helstu taktana en þar sem tíminn okkar í vikunni féll niður þá erum við ekki komin lengra en þetta. Fengum reyndar loksloksloks disk í hendurnar með framtíðarmúsíkinni og höfum aðeins hlustað og jafnvel reynt að herma. Maður er svo æstur að ná góðum árangri. Strumpan hefur hins vegar enga þolinmæði og í gær lá við að hún grýtti fiðlunni í gólfið vegna þess að hún gat ekki spilað rétt með laginu sem við hlustuðum á. Það sama gerðist þegar hún var að teikna með pabba sínum, henni gramdist svo þegar hans myndir voru fallegri en hennar að hún fór á orgið.

Einhverjir komplexar eru líka að gera við sig núna. Hún er afar upptekin af útlitinu. Í gær í kvöldmatnum ræddum við hvað fiskur væri góður fyrir vöðva og hún lýsti yfir miklum áhuga á að fá risavöðva. Við gerðum þau mistök að reyna að draga úr því, það væri jafnvel frekar ljótt og þá brast hún í grát og spurði hvort okkur fyndist (eða myndi þá finnast) hún ljót. Í morgun vorum við aftur að ræða útlitið og þá sagði hún að sumum fyndist hún ljót. Þetta uppeldi. Maður reynir og rembist en stundum verður manni orðavant.