Ég var einu sinni nörd

Ég er búin að uppgötva nýjan Jón sem gæti verið með stand-up undir þessu heiti. Og nei, það er ekki minn ástkærasti Jón Guðmundur, jafn hnyttinn og hann nú er. Ég var nefnilega á tónleikum í gær með Jóni Góða. Það var alveg magnað að sitja þarna og sjarmi hans er augljóslega mikið, ég er jú alltaf veik fyrir góðum húmor. En hann var náttúrulega einu sinni nörd, eða amk með nördaútlit. Síðakrulluhárið, það var ekki alveg að gera sig.

Þið sem munið könnunina frá því hér um árið þar sem ég spurði fyrir hverjum ég væri veikust í Nýdönsk – það voru nokkrir alveg vissir um að það væri Jón Ólafs. Og svei mér, mér leið þannig í gærkvöld. Hann á náttúrulega mörg alveg æðisleg lög, en það sem lyftir þessu upp á hærra plan eru notalegheitin sem geisla af honum. Og þessi frábæri húmor. Hann talar nánast meira en hann syngur, sagðist reyndar alltaf segja sömu brandarana en ég hef svo sem ekki farið á tónleika með honum áður. Hann sagði meðal annars í kynningunni um „Tunglið mitt“ að hann hefði sent það inn í undankeppni Eurovision 1986, en þegar hann heyrði Gleðibankann áttaði hann sig á því um hvað keppnin snérist – um gleði en ekki þunglyndi. En hann reyndi síðan að senda lagið í Landslagið ’89 og því var heldur ekki tekið fagnandi. Jón fullyrti að það hefði bara verið búið að spila svona 10 – 15 sekúndur af TDK spólunni sinni, svo það var afskrifað strax.  En kvöldið var sem sagt, hreinn unaður. Gott að maður drífur sig stundum af stað, eins gott að Mummi ýtti við mér.

Síðan var annar í fiðlu í gær. Við hjónin fengum að æfa okkur að spila á A streng og E streng í gær (G strengurinn er fyrir lengra komna 😉 ). Það hljómaði ekkert unaðslega hjá okkur en við erum svo áköf í fiðlunáminu að við æfðum okkur bæði heima í gær. Strumpan fékk lítið að gera í tímanum, aðeins að sýna hvernig maður stendur og heldur, svo hún var frekar óþolinmóð. Þetta kemur með kalda vatninu.